Fundagerð aðalfundar Sörla haldinn þann 25. október 2018.

Setning fundar

Formaður Sörla, Thelma Víglundsdóttir bauð félagsmenn velkomna á aðalfund Sörla og setti fundinn. Alls mættu um 70 félagsmenn á fundinn.

Kosning fundarstjóra og fundarritara

Darri Gunnarsson var kosinn fundarstjóri og Valka Jónsdóttir fundarritari - einróma samþykkt.

Boðun fundar

Fundarstjóri fór yfir boðun fundar og upplýsti að hann væri í samræmi við reglur félagsins. Engar athugasemdir voru gerðar við boðun fundarins.

Félagatal

Ritari stjórnar, Valka Jónsdóttir frá því að félagar væru 788 og hefur þeim fjölgað frá því í fyrra.  Börn yngri en 18 ára eru 208 og hefur fækkað í þeim hópum á síðustu árum, er það áhyggjuefni.

Sjá súlurit í viðhengi: Fjöldi félagsmanna árin 2015 - 2018 

Skýrsla stjórnar

Thelma Víglundsdóttir formaður las og kynnti skýrslu stjórnar.

Á starfsárinu hefur stjórn félagsins haldið 11 reglulega stjórnarfundi, auk reglulegra stjórnarfunda hafa stjórnarmeðlimir og framkvæmdastjóri verið í miklum samskiptum og stundum oft á dag eins og gengur. Á fyrsta fundi nýkjörinnar stjórnar skiptu aðilar með sér verkum og nýji meðlimur stjórnar tók við gjaldkerastarfi annars var stjórn óbreytt.

Nefndarstörf hófust svo að venju með skipulagningu vetrardagskrár, dagskráin leit dagsins ljós og var með svipuðu sniði og fyrri ár með föstum viðburðum s.s. skötuveislu, þorrablóti, skírdagskaffi o.s.frv., þó má alltaf sjá einhverjar nýjungar og breyttar áherslur.

Ekki verður fjallað sérstaklega um viðburði starfsnefnda hér í skýrslu stjórnar, formenn nefnda munu gera það hver fyrir sig þegar þeir kynna sínar skýrslur fyrir starfsárið.

Landsmót var haldið í Reykjavík í byrjun júlí þar átti Sörli fjölmarga fulltrúa sem stóðu sig með prýði í öllum flokkum. Þess má kannski helst geta að Snorri Dal reið A úrslit í B flokki á hestinum Sæþóri frá Stafholti og enduðu þeir í 8. sæti. Stóðhesturinn Herkúles frá Ragnheiðarstöðum var einnig í þessum A úrslitum en Herkúles er í eigu sörlafélagans Helga Jóns Harðarsonar.                                                                 Hanna Rún reið B úrslit í tölti á hestinum Hrafnfinni frá Sörlatungu þau enduðu í 11. sæti. Annabella Sigurðardóttir komst í milliriðil í ungmennaflokki með hestinn Þórólf frá Kanastöðum og endaði í 30. sæti. Katla Sif Snorradóttir reið B úrslit í unglingaflokki endaði í 10. sæti með hestinn Gust frá Stykkishólmi.  Jónas Aron Jónasson komst í milliriðil í unglingaflokki með Þrumu frá Hafnarfirði og endaði í 24-25 sæti. Kolbrún Sif Sindradóttir reið B úrslit í barnaflokki og endaði í 9. sæti.                                               Í 100 metra skeiðinu voru þau feðginin Hanna Rún með Birtu frá Suður-Nýjabæ í 17. sæti og Ingibergur Árnason með Sólveigu frá Kirkjubæ sem enduðu í 13.sæti.

Ásta Kara var liðstjóri okkar á landsmóti og stóð sig með stakri prýði, hún bauð einnig upp á keppnisþjálfun fyrir keppendur í yngri flokkum við þökkum henni vel fyrir sitt framlag.

Sigríður Kristín Hafþórsdóttir var ráðin framkvæmdastjóri Sörla í um mánaðarmót sept./okt. og hefur hún formlega störf 1. nóvember næstkomandi. Didda er allflestum Sörlafélögum kunnug, hún hefur verið ötul í félagsstarfinu um árabil. Stjórn Sörla hlakkar mikið til samstarfs við Diddu, eins og ég vænti að félagsmenn geri líka og langar mig að bjóða hana formlega innilega velkomna til starfa.

Stjórn Sörla vill jafnframt þakka Þórunni Ansnes fráfarandi framkvæmdastjóra fyrir hennar starf í þágu félagsins undanfarin fjögur ár.

Einn stjórnarmanna, Einar Örn Þorkelsson hætti störfum á árinu af persónulegum ástæðum og þakkar stjórn Einari kærlega fyrir hans framlag til Sörla.

Landsþing landssambands hestamannafélaga var haldið á Akureyri dagana 12. og 13. október og átti Sörli 11 fulltrúa á þinginu. Margt var til umræðu á þinginu að venju, keppnismál eiga alltaf mjög stóran sess í umræðum þingsins og finnst mörgum að þau mál séu kannski farin að taka of mikið pláss umfram aðra mjög svo þarfa umræðu á þessum vettvangi s.s. reiðvegamálum á landsvísu og nýliðun í hestamennsku svo dæmi séu tekin. En eitt af stóru málunun á þessu þingi var formannskosning en hún fór þannig að Lárus Ástmar Hannesson sigraði naumlega í þeirri kosningu gegn Jónu Dís Bragadóttur. Fulltrúi frá Sörla er komin aftur í stjórn LH. Eggert Hjartarsson hlaut kjör í aðalstjórn LH. og óskum við honum innilega til hamingju með það. Það leikur engin vafi á því að Eggert á eftir að skila þar góðu starfi eins og hann gerir hér í Sörla.

Tilnefningar íþróttafólks Sörla.  Á síðasta ári tók stjórn upp stigkerfi líkt og hjá mörgum öðrum hestamannafélögum við valið á afreksíþróttafólki okkar. Stigataflan er gefin út á vef Sörla og íþróttafólkið okkar beðið um að senda inn til stjórnar keppnisárangur sinn. Á síðasta ári var bætt við viðurkenningunum fyrir:,

  1. Áhugamann Sörla, sem valin er úr hópi knapa sem keppa í öðrum flokkum en í 1. flokki og meistaraflokki.
  2. Besti keppnisárangur í barna eða unglingaflokki
  3. Áhugasamasti einstaklingurinn í barna og unglingaflokki, þar er horft til áhuga, framfara, þátttöku í viðburðum félagsins, í keppni og námskeiðaþátttöku hjá félaginu.

Þeir sem hlutu þessar viðurkenningar á síðasta aðalfundi, árið 2017 voru.

Friðdóra Friðriksdóttir hlaut viðurkenninguna íþróttakona Sörla, Sindri Sigurðsson hlaut viðurkenninguna íþróttakarl Sörla. Útnefninguna efnilegasta ungmennið hlaut Viktor Aron Adolfsson. Viðurkenningu fyrir bestan keppnisárangur í barna eða unglingaflokki hlaut Katla Sif Snorradóttir. Áhugasamasti einstaklingurinn í barna eða unglingaflokki var valin Sara Dögg Björnsdóttir. Viðurkenninguna áhugamaður Sörla hlaut Kristín Ingólfsdóttir.

Nefndarbikarinn hlaut Krísuvíkurnefnd.

Umræða hefur átt sér stað í stjórn að annar vettvangur en aðalfundur væri heppilegri fyrir veitingu viðurkenninga eins og t.d. uppskeruhátíð, ég vænti þess að við munum innleiða það á næsta ári.

Samskipti við bæjaryfirvöld o.fl. Ýmis mál hafa verið uppi á teningnum í samskiptum bæjaryfirvalda og hestamannafélagins Sörla, en þessi þáttur stjórnarstarfsins er afar þýðingarmikill en fer ekki hátt í umræðu um störf stjórnar.

Þar ber kannski hæst áform um byggingu nýrrar reiðhallar í þeirri vinnu hefur margt áunnist m.a. breyting á deiliskipulagi, stofnum vinnuhóps um byggingu nýrrar reiðhallar þann hóp skipa, Halldóra Einarsdóttir formaður, og ásamt henni starfa í hópnum Ásgeir Margeirsson, Haraldur Þór Ólafsson, Hrund Einarsdóttir og Sævar Þorbjörnsson.

Fundur með bæjarstjóra. Aðilar úr stjórn ásamt Halldóru Einarsdóttur og Haraldi Ólafssyni fóru á fund bæjarstjóra um mánaðarmót ágúst september þar sem lögð var áhersla á mikilvægi þess að bæjaryfirvöld færu eftir forgangsröðun ÍBH í nýframkvæmdum á íþróttasvæðum bæjarins, en áður hafði bæjarstjóri tjáð sig í fjölmiðlum að knatthús á félagssvæði Hauka væri næst á dagskrá og aldrei neitt minnst á reiðhöll á félagssvæði Sörla. Í framhaldi af þessum fundi var svo stofnaður starfshópur á vegum bæjarins þar sem sitja fulltrúar Sörla og aðilar úr minni – og meirhluta bæjarins, verkefni þessa hóps er að skoða og skila áliti á framtíðaruppbyggingu á athafnasvæði Sörla í samræmi við forgangsröðun ÍBH. Halldóra Einarsdóttir ætlar hér á eftir að fara nánar yfir stöðu þessa verkefnis.

Reiðhjóla – og göngustígurinn er orðin að veruleika. Mikil áhersla var lögð á hraðatakmarkanir á og við stíginn, ósk um að tekið yrði úr malbikinu í þveruninni úr Hlíðarþúfum var ekki tekin til greina. Stjórn Sörla er ekki nægilega sátt við þær hraðatakmarkanir sem settar hafa verið og munum við halda áfram af fullum krafti að krefjast úrbóta á hraðahindrunum og að þær séu þannig úr garði gerðar að þær skili tilsettum árangri.

Viðræður við bæinn um úrbætur á viðrunar- og beitarhólfum fyrir sörlafélaga. Sörli fékk úthlutaða rúma 12 hektara á ásnum við hlið Hlíðarþúfna. Vonir standa til þess að allt það svæði komi til úthlutunar Sörlafélaga næsta vor fyrir viðrunarhólf.

Nýjir lóðarleigusamningar við Hlíðarþúfur í höfn í febrúar. Sörli er ekki lengur leigutaki heldur eru það þinglýstir eigendur hesthúsanna sem eru leigutakar lóða. Við hvetjum þá sem enn eiga eftir að skrifa undir samninga að gera það strax svo hægt sé að þinglýsa þessum mikilsverðu réttindum húseigenda.

Samstarfsamningur milli Sörla og Íshesta hefur verið í deiglunni en ekki tekist að ljúka þeirri vinnu. Það verður að segjast eins og er að stjórn Sörla hafði gert sér vonir um meira og öflugra samstarf við þetta öfluga ferðaþjónustufyrirtæki sem staðsett er hér á svæðinu. Þar má helst nefna að stjórn telur að Íshestar ættu og gætu komið mun öflugar inn í samstarf við félagið vegna lagningu og viðhalds reiðvega. Þessi mál eru í áframhaldandi vinnslu hjá stjórn.

Félagsgjöld líðandi árs voru 10.000 krónur. Innheimta var í samræmi við árið á undan og fyrri ár. Það er áhyggjuefni að innheimta félagsgjalda er ekki nægilega góð og er það vilji núverandi stjórnar að taka betur á þeim málum á næsta starfsári.

Framkvæmdir Reiðhöll og vallarsvæði. Dagana 24., 25. og 26. apríl stóðu yfir endurbætur á mótssvæði okkar Sörlamanna. Það var frábært að sjá nýja sjálfboðaliða taka þátt í starfinu ásamt vönu fólki sem ávallt er reiðubúið að vinna fyrir félagið sitt. Stjórnin þakkar kærlega öllum þeim sem mættu í til þessarar vinnu. Um 20 manns mættu í heildina til starfa á þessum kvöldum. 

Framkvæmdir fólust í því að plaströrin hvítu og timburverkið sem var áður meðfram völlum og keppnisbraut og komið var til ára sinna var fjarlægt og hvítur kaðall var settur í staðinn. Sagað var ofan af staurum meðfram beinu brautinni þannig að hestar sjást betur í brautinni. Skipt var um festingar ofan á öllum staurum og settar festingar fyrir kaðalinn sem nú er á báðum hringvöllum og á beinu brautinni. Gras og grjót meðfram völlum var einnig fjarlægt og skipt um brotna staura. Að lokum voru vellirnir slóðadregnir og síðan víbravaltaðir.

Kynbótasýning. Ekki var haldin nein kynbótasýning á Sörlastöðum í ár og þykir stjórn það afar miður. Nú stendur til að halda fund með starfsfólki RML sem hafa tekið mjög jákvætt í það að halda kynbótasýningu í Sörla næsta vor. Fyrirhugaðar eru framkvæmdir við skeiðbrautina eftir þann fund í haust eða snemma næsta vor þar sem til skoðunar kemur að skipta um efni í brautinni og laga umhverfi hennar. Kynbótasýningar eru skemmtilegur viðurburður og oft á tíðum hin bestu mannamót og er það markmið stjórnar Sörla að kynbótasýningar séu haldnar í Sörla.

Námskeiðahald í félaginu var með svipuðu sniði og fyrri ár, Þórunn formaður fræðslunefndar mun fara yfir námskeiðin sem haldin voru í skýrslu fræðslunefndar hér á eftir.

Reiðskóli Sörla og Íshesta var starfræktur í sumar. Í sumar var eingöngu boðið upp á námskeið í júní. Skólinn var að venju vel sóttur og almenn ánægja var meðal nemenda, foreldra og starfsmanna. Þetta starf hefur farið minnkandi með árunum að vilja Íshesta og er það miður því eftirspurnin er mjög mikil. Það er afturför í þessari þjónustu við börn þar sem nýliðun á sér stað þegar við getum ekki annað eftirspurn á félagssvæði Sörla og börn úr bæjarfélaginu sækja reiðskóla í öðrum hestamannafélögum. Stjórn Sörla hefur metnað fyrir að gera reiðskólann öflugri og að geta boðið fleirum að sækja skólann. Verður að skoða þau mál í framhaldinu ef ekki í samstarfi við Íshesta þá með öðrum leiðum. Unnið verður í þessum málum áfram í stjórn.

Hið árlega nefndargrill var haldið þann 28. september og tóks það með ágætum. Stjórn Sörla hefur hins vegar í hyggju að skoða hvort þann viðburð megi jafnvel endurskoða, mögulega tengja hann við uppskeruhátíð félagsins eða árshátíð og verður það skoðað á næsta starfsári stjórnar.

Að lokum vill stjórn þakka öllum nefndum og sjálfboðaliðum félagsins fyrir þeirra góðu störf og framlag á árinu til félagsstarfssins. Við vitum líka að við getum gert enn betur og með breyttum áherslum og nýjum framkvæmdastjóra er það von okkar að gott starf verði enn betra á næsta ári.

Reikningar félagsins.

Varaformaður Sörla, Atli Már Ingólfsson kynnti milliuppgjör fyrir fyrstu átta mánuði ársins í umboði gjaldkera félagsins, Kristínar Þorgeirsdóttur.

Árshlutareikningur Sörla var lagður fram tvennu lagi þ.e. árshlutareikningur 2017 og svo 2018.  Ástæðan er sú að verið er að breyta uppsetningu bókhaldsing og því eru reikningar frá sitt hvoru árinu ekki alveg samanburðarhæfir. Ástæður breytinganna eru þær að við þurfum að gera fjárframlög Hafnarfjarðarbæjar, IBH og fleir aðila skýrari og i samræmi við gildandi samninga.

Aftast í reikningum voru ítarlegar skýringar á gengi hverrar nefndar eða rekstrareiningar fyrir sig.

Rekstrartekjur eru alls rúmar 28 milljónir og rekstrargjöld eru rúmar 29 milljónir en inni í þeim gjöldum eru afskriftir upp á tæpar 3 milljónir. Tap af rekstri eftir afskriftir er því rúmlega 900 þúsund. Stórir óhefðbundnir útgjaldaliðir ársins voru liðir sem tengdust viðgerð á velli og ýmsum kostnaði tengdum landsmóti.
Eignir og fastafjármunir eru alls rúmlega 38,5 milljónir og veltufjármunir alls tæpir 19,8 milljónir. Þar af eru rúmlega 19,5 milljónir í handbæru fé þannig að félagið er mjög vel statt hvað varðar lausafè. Eignir alls eru því tæpar 58,4 milljónir

Eigið fé er samtals rúmlega 56,6 milljónir og skammtímaskuldir rúmlega 1,7 milljónir. Skuldir og eigið fè samtals eru því rúmlega 58,4 milljónir.
Skuldir félagsins eru eingöngu skammtímaskuldir  sem samanstanda af ógreiddum launum og nokkrum reikningum sem voru á eindaga eftir mánaðarmótin og voru greiddir þá. 

Umræður um skýrslu stjórnar og milliuppgjör félagsins

Fundarstjóri gaf orðið laust.

Ómar Ívarsson: Myndi ekki skuldastaða breytast við það að byggja reiðhöll.
Atli Már:  Reiðhöllin myndi að öllum líkindum vera í 90% í eigu bæjarins en rekstrarkostnaður yrði meiri.  Mikilvægt að byggja reiðhöll og að það sé rekstrargrundvöllur fyrir höllinni. Thelma: Það yrði nauðsynlegt að fá styrktarfé til rekstrar reiðhallar.

Jón Björn Hjálmarsson.  Frábær ræða hennar Thelmu.  Stakk mig samt að merin Katla frá Hemlu II hafi ekki verið nefnd í skýrslu stjórnar. Thelma: Tekur þetta til sín en kynbótanefndin sér um að veita viðurkenningar og segja frá kynbótahrossum.

Frekari umræður urðu ekki um skýrslu stjórnar né reikninga félagsins.

Fundarstjóri bar upp skýrslu stjórnar og reikninga félagsins til samþykktar. Skýrsla stjórnar og milliuppgjör voru samþykktir samhljóða.

Kynning á starfi nefnda

Formenn/fulltrúar nefnda sögðu frá starfinu á árinu. Þær skýrslur sem bárust má finna sem fylgiskjöl með aðalfundagerðinni.

  • Ferðanefnd: Thelma Víglundsdóttir greindi frá starfi Ferðanefndar fyrir hönd Ástu Snorradóttur.
  • Fræðslunefnd: Þórunn Þórarinsdóttir greindi frá starfi Fræðslunefndar
  • Krýsuvíkurnefnd: Sigríður Kristín Hafþórsdóttir greindi frá starfi Krýsuvíkurnefndar fyrir hönd Guðmundar Smára Guðmundssonar.
  • Kynbótanefnd: Snorri Snorrason greindi frá starfi Kynbótanefndar fyrir hönd Vilhjálms K. Haraldssonar.
  • Kvennadeild: Gerður Stefánsdóttir greindi frá starfi Kvennadeildar fyrir hönd Ástu Snorradóttur.
  • Laganefnd: Atli Már Ingólfsson greindi frá starfi Laganefndar
  • Lávarðadeild: Vilhjálmur Ólafsson greindi frá starfi Lávarðadeildar
  • Móta- og vallanefnd: Enginn frá mótanefnd mætti til að greina frá starfi hennar.
  • Reiðveganefnd: Eggert Hjartarson greindi frá starfi Reiðveganefndar.
  • Skemmti- og fjáröflunarnefnd: Ragnar Eggert Ágústsson greindi frá starfi Skemmti- og fjáröflunarnefndar fyrir hönd Jóns Angantýssonar.
  • Sörlastaðanefnd: Hilmar Bryde mætti ekki.
  • Æskulýðsnefnd: Dagbjört Hulda Guðbjörnsdóttir greindi frá starfi Æskulýðsnefndar

Umræður um skýrslur nefnda

Ekki urðu neinar umræður um skýrslur nefnda.

Kosning formanns

Thelma Víglundsdóttir gaf ekki kost á sér aftur sem formaður.  Atli Már Ingólfsson gaf kost á sér sem formaður og  fékk hann einróma kosningum.

Kosning manna í stjórn

Kjörnir eru þrír stjórnarmenn til tveggja ára á hverjum aðalfundi. Kjörtímabili Hönnu Rúnar Ingibergsdóttur, Völku Jónsdóttur og Atla Más Ingólfssonarvar lokið. Í stjórn sátu áfram Eggert Hjartarsson og Kristín Þorkelsdóttir. Einar Örn Þorkelsson hætti á miðju ári á sínu fyrra starfsári og því var laust sæti til eins árs í stjórn.

Hanna Rún Ingibergsdóttir bauð sig ekki fram aftur í stjórn. Valka Jónsdóttir bauð sig fram til stjórnar til eins árs í stað Einars Arnar.

Thelma Víglundsdóttir fráfarandi formaður, Ásta Kara Sveinsdóttir, Stefnir Guðmundsson og Ólafur Rowell buðu sig fram til stjórnar. Þar sem aðeins voru 3 laus sæti í stjórn fór fram leynileg kosning.  Niðurstöður hennar urðu þær að Ásta Kara Sveinsdóttir, Stefnir Guðmundsson og  Thelma Víglundsdóttir náðu kjöri í stjórn.

Stjórn 2018 – 2019 er því:

  • Atli Már Ingólfsson, formaður
  • Ásta Kara Sveinsdóttir
  • Eggert Hjartarsson
  • Kristín Þorgeirsdóttir
  • Stefnir Guðmundsson
  • Thelma Víglundsdóttir
  • Valka Jónsdóttir

Fundurinn bauð nýja stjórnarmenn velkomna og var fráfarandi stjórnarmanni þakkað fyrir störf fyrir félagið.  Stjórn mun skipta með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi þeirra.

Kosning endurskoðenda

Valgeir Ólafur Sigfússon og Ingvar Teitsson voru einróma kosnir til ofangreindra verka og Gríma Huld Blængsdóttir var kosin sem varaendurskoðandi.

Viðurkenningar

Thelma Víglundsdóttir, formaður veitti viðurkenningar fyrir góðan árangur.

Íþróttakona Sörla: Hanna Rún Ingibergsdóttir  

Hanna Rún átti gott keppnisár. Hún varð í 3.sæti slaktaumatölti á WR Reykjavíkurmeistaramóti, á WR íþróttamóti Sleipnis varð hún í 6.sæti í 4gangi meistara í 3.sæti í slaktaumatölti og í 3.sæti í tölti meistara. Á gæðingamóti Sörla varð hún í 2.sæti í B flokki með hestinn Grím frá Skógarási og var valin knapi mótsins. Hanna Rún reið B úrslit í tölti á landsmóti og endaði þar í 11.sæti. Hanna Rún keppti einnig í 100 m. skeiði á landsmóti. Hanna átti einnig glæsilegan árangur á Íslandsmóti og á WR Suðurlandsmóti. Hanna Rún er prúður knapi innan vallar sem utan og frábær fyrirmynd.

Íþróttamaður Sörla: Snorri Dal

Snorri sigraði B flokk á Gæðingamóti Sörla. Hestur hans Sæþór frá Stafholti var valinn gæðingur mótsins. Þeir félagar riðu sig beint inn í A úrslit eftir milliriðla á landsmóti með glæsilega einkunn 8,68. Á Hafnarfjarðarmeistaramóti Sörla var Snorri í 1.sæti í fjórgangi meistarafl. og í 2.sæti í bæði tölti meistara og fimmgangi meistara. Snorri átti einnig glæsilegan árangur á Gæðingaveislu Sörla, opnu gæðingamóti á Flúðum og á Metamóti Spretts. Snorri er vel að þessari viðurkenningu kominn.

Áhugamaður Sörla: Hafdís Arna Sigurðardóttir

Hafdís Arna er einn af okkar duglegustu áhugamönnum í keppni. Á WR Reykjavíkurmeistaramóti varð hún í 2.sæti í 5 gangi. Á Hafnarfjarðarmeistaramótinu varð hún í 5.sæti í tölti, 3.og 5.sæti í 5 gangi og Hafnarfjarðarmeistari, hún hlaut 4 sæti í gæðingaskeiði, og 4.sæti í 100 m. skeiði. Á gæðingamóti Sörla varð hún í 1. og 7.sæti í A flokki og vann sér inn keppnisrétt á landsmóti með Sólon frá Lækjarbakka. Á þessu móti varð hún einnig í 3.sæti í 100m. skeiði og í 4.sæti í keppni unghrossa. Árangur Hafdísar Örnu teygir sig víða og átti hún glæstan árangur á Áhugamannamóti Spretts, Áhugamannanóti Íslands og á Gæðingaveislu Sörla. Hafdís Arna keppti einnig með mjög góðum árangri í Áhugamannadeild Spretts. Hafdís Arna er fyrirmyndar knapi bæði innan vallar og utan.

Ungmenni: Annabella R Sigurðardóttir

Annabella varð í 1.sæti í ungmennafl. á Gæðingamóti Sörla og varð í 11.sæti í milliriðli á LM og hafnaði svo í 29.sæti. Á Hafnarfjarðarmeistaramóti varð hún í 1.sæti í tölti. Á WR Reykjavíkurmeistaramóti varð hún í 7.sæti í tölti T1. Og á Íslandsmóti yngri flokka lenti hún í 7.sæti í 4 gangi. Einnig var Annabella keppandi í Blue lagoon mótaröðinni sem haldin er í Spretti. Annabella er klárlega upprennandi keppnisknapi og óskum við henni gæfu á keppnisvellinum í framtíðinni.

Barna- og unglingaflokkur : Katla Sif Snorradóttir

Katla Sif varð í 1.sæti í gæðingakeppni Sörla. Á LM reið hún sig inn í B úrslit eftir milliriðla og endaði þar í 10.sæti á gæðingnum sínum Gusti frá Stykkishólmi með glæsilega einkunn 8.61. Á WR Reykjavíkurmeistaramóti varð Katla í 7.sæti í 4 gangi. Á Hafnarfjarðarmeistaramóti Sörla lenti Katla í 1.sæti í tölti unglinga og einnig náði hún 1.sætinu í 4 gangi á því móti. Á Íslandsmóti varð hún í 13-14 sæti í tölti og 6.sæti í 4.gangi í sterkum unglingaflokki. Á Íslandsmóti yngri flokka varð Katla Íslandsmeistari í fimi unglinga annað árið í röð. Katla var svo fulltrúi landsliðsins á Norðurlandamót í Svíþjóð í lok sumars og varð þar í 5.sæti í 4.gangi V1 í ungmennafl. og í 9.sæti í tölti T1 í ungmennafl. Katla átti einnig glæsilegan árangur á Blue lagoon mótaröðinni og á opnu gæðingamóti Landstólpa. Katla Sif bætir í á hverju ári og verður gaman að fylgjast með henni í framtíðinni og viljum við óska henni sérstaklega til hamingju með að hafa bætt landsliðs rósinni í hnappagatið.

Áhugasamasti einstaklingurinn í barna og eða unglingaflokki: Jónas Aron Jónasson

Jónas Aron hefur verið mjög virkur í félagstarfi Sörla á árinu. Hann er jákvæður, til í flest, góður við yngri krakka og tekur nýjum krökkum opnum örmum. Jónas tók þátt í skrúðreið í miðbæ Reykjavíkur, tók virkan þátt í sýningum fyrir félagið, bæði 1.maí sýningunni í Sörla og Æskan og Hesturinn og bar íslenska fánann í báðum sýningum með sóma. Jónas er einnig virkur á keppnisvellinum, tók m.a. þátt á LM með prýðisárangri, hann tók einnig þátt í meistaradeild Líflands og æskunnar síðasta vetur og sýndi þar góða reiðmennsku.                                                                                                         

Jónas Aron er góð fyrirmynd og fékk góða umsögn bæði frá æskulýðsnefnd og reiðkennara sem eru matsmenn á þessa viðurkenningu. 

Nefndarbikarinn fór til Reiðveganefndar Sörla  En nefndin hefur staðið í ströngu m.a. opnað nýja leið yfir Bleiksteinshálsinn, sett upp leiðarskilti um allt Sörlasvæðið og víðar og unnið ötullega að því að verja hagsmuni Sörla og leita leiða til að fá fjármuni til frekari viðhalds og uppbyggingu reiðvega. 

Helgi Jón Harðarson frá kynbótanefnd Sörl veitt viðurkenningur fyrir annars vegar hæst dæmda kynbótahross ræktað af Sörlafélaga og hins vegarn hæst dæmda kynbótahross í eigu Sörlafélaga. Þetta árið fóru báðir bikararnir til Önnu Kristínar Geirsdóttur sem er ræktandi og eigandi hryssunnar Kötlu frá Hemlu II. Á vorsýningu í Spretti fékk Katla fyrir sköpulag 8,48 og fyrir hæfileika 8.89, alls 8,72.

Kosning í nefndir

Eftirtaldir félagsmenn gáfu kost á sér til sjálfboðaliðastarfa í eftirtöldum nefndum og voru formenn kosnir sérstaklega:

Ferðanefnd

  • Ásta Snorradóttir, formaður
  • Arngrímur Svavarsson
  • Jón Harðarson
  • Kristín Auður Elíasdóttir

Fræðslunefnd

  • Þórunn Þórarinsdóttir, formaður
  • Hanna Blanck
  • Kristján Jónsson
  • Friðdóra Friðriksdóttir

Krýsuvíkurnefnd

  • Guðmundur Smári Guðmundsson, formaður
  • Eyjólfur Þorsteinsson
  • Gunnar Örn Ólafsson
  • Gunnar Þór Karlsson
  • Pétur Ingi Pétursson
  • Ólafur Þ. Kristjánsson

Kynbótanefnd

  • Snorri Rafn Snorrason, formaður
  • Einar Valgeirsson
  • Geir Harrysson
  • Helgi Jón Harðarson
  • Oddný M. Jónsdóttir
  • Stefán Guðmundsson
  • Vilhjálmur Karl Haraldsson

Kvennanefnd

  • Gerður Stefánsdóttir, formaður
  • Ásta Snorradóttir
  • Guðný Einarsdóttir
  • Lilja Bolladóttir

Laganefnd

  • Hafdís Arna Sigurðardóttir, formaður
  • Darri Gunnarsson
  • Stefanía Sigurðardóttir

Lávarðanefnd

  • Vilhjálmur Ólafsson, formaður
  • Hilmar Sigurðsson, aðalritari

Móta- og vallanefnd

  • Stella Björg Kristinsdóttir, formaður
  • Jóhanna Freyja Ásgeirsdóttir
  • Kristín Ingólfsdóttir
  • Lilja Hrund Pálsdóttir
  • Sindri Sigurðsson
  • Svandís Magnúsdóttir
  • Anna Björk Ólafsdóttir
  • Freyja Aðalsteinsdóttir

Reiðveganefnd

  • Jón Ásmundsson, formaður
  • Jón Björn Hjálmarsson
  • Ólafur F C Rowell
  • Jóhann Sigurður Ólafsson

Skemmti- og fjáröflunarnefnd. 

  • Ása Dögg 
  • Ásthildur Guðmundsdóttir
  • Ragnar Eggert Ágústsson
  • Steinþór Steinþórson
  • Eyþór Elmar Berg
  • Bertha María Waagfjörð
  • Þórdís Anna Oddleifsdóttir
  • Einar Ásgeirsson
    Nefndinni var falið að finna formann sem færi fyrir nefndinni.

Sörlastaðanefnd

  • Pálmi Þór Hannesson
  • Grétar Ómarsson
  • Ísleifur Þór Erlingsson
  • Stefnir Guðmundsson
    Nefndinni var falið að finna formann sem færi fyrir nefndinni.

Æskulýðsnefnd

  • Dagbjört Hulda Guðbjörnsdóttir, formaður
  • Freyja Aðalsteinsdóttir
  • Jóhanna Ólafsdóttir
  • Elín M. Magnúsdóttir
  • Jónas Aron Jónasson

Árgjald næsta ár

Tillaga frá stjórnar um óbreytt árgjaldið (kr. 10.000) var samþykkta af fundarmönnum. 

Töluverðar umræður áttu sér stað um þennan lið.  Sér í lagi þ.s. innheimta félagsgjalda er ekki nógu góð.  Skiptar skoðanir voru um það hvort þetta væri hátt gjald eða ekki. Einn fundargesta sagði: Þetta er ekki há fjárhæð og mætti hækka.  Miðað við hvað við fáum fyrir gjaldið s.s. reiðvegi, lýsingu, mokstur, aðgang að reiðhöll, Worldfengur o.fl.  Annar fundargesta vildi meina að þetta væri ekki nægilega fjölskylduvænt. Hvort ekki væri fjölskylduafsláttur? Svarið var að það var svo flókið að halda utan um hverjir væru saman sem fjölskylda og hver ekki og ef breytingar verða á fjölskylduháttum var ómögulegt að fylgjast með því.  Því var farið í að einfalda reglurnar.  Hafa eitt gjald og rukka einungis fólk á aldrinum 19 – 69 ára. Aðrir frá fría aðild. Hanna Rún: Bý í sveit og þar eru reiðvegir ekki ruddir.  Væri til að greiða 10.000 bara fyrir það. Dagbjört:  Börn borga ekkert, hvorki félagsgjald né viðburði hjá Æskulýðsnefndinni – allt frítt. Stella Björg:  Þarf vitundarvakningu.  Í fyrra vetur vantaði lýsingu á marga ljósstaura skógarhringinn.  Svo kannski þess vegna vill fólk ekki borga félagsgjöld.

Lagabreytingar

Ellefu lagabreytingartillögur lágu fyrir aðalfund.  Til að breytingar á lögum taki gildi verða þær lagðar aftur fyrir á framhaldsaðalfundi og þurfa þar samþykki 2/3 hluta viðstaddra.

________________________________________________________________________________________

1. Lögð er til eftirfarandi breyting á 1. mgr. 5. grein laganna og 3. og 4. mgr. 5. gr.

Í stað orðanna „átta til níu“ í 1. mgr. komi „sex“. 1. mgr. orðast því svo eftir breytingu:

„Reikningsár félagsins er almanaksárið. Þó skal á aðalfundi gerð grein fyrir rekstri fyrstu sex mánuði ársins, sem er að líða“.

3. og 4. mgr. orðist svo:

„Reikningar félagsins skulu samdir af fagaðila og áritaðir af kjörnum skoðunarmönnum félagsins.

Reikningar félagsins skulu liggja frammi til skoðunar einni  viku fyrir aðalfund.“

Lögð var fram breytingatillaga sem fólst í því að breyta aðalfundi í félagsfund og að aðalfundur yrði haldinn í maí. 

Breytingatillögu var hafnað.

Tillaga 1 var samþykkt óbreytt.

________________________________________________________________________________________

2. Lögð er til eftirfarandi breyting á 5. mgr 5. gr.

Í stað orðanna „“1. júní“ komi „“1. mars“ og orðast greinin því svo eftir breytingu:

Hefja skal innheimtu félagsgjalda í upphafi árs og stefnt að því að henni sé lokið 1. mars.

 

Tillaga 2 var samþykkt óbreytt.

________________________________________________________________________________________

3. Lögð er til eftirfarandi breyting á 6. mgr 5. gr.

Í stað orðann „16“ komi „18“ og orðast greining því svo eftir breytingu:

„Þeir félagar, sem náð hafa sjötugsaldri, skulu vera undanþegnir greiðslu árgjalds og félagar yngri en 18 ára greiði eigi meira en hálf árgjald“.

Lögð var fyrir breytingatillaga. 

Þeir félagar, sem náð hafa sjötugsaldri, skulu vera undanþegnir greiðslu árgjalds og félagar yngri auk félagsmanna yngri en 18 ára.

Breytingatillaga á tillögu 3 var samþykkt.

________________________________________________________________________________________

4. Lagt er til að 1. mgr. 6. gr. orðist svo:

„Aðalfund skal halda í september ár hvert. Til hans skal boðað með minnst tveggja vikna fyrirvara með auglýsingu á heimasíðu félagsins, auk annarra samfélagsmiðla að mati stjórnar. Í fundarboði skal vísað til laga félagsins um dagskrá.

Tvær breytingatillögur voru lagðar fram

Breytingatillaga 1:  Aðalfundur skal halda í maí ár hvert. Til hans skal boðað með minnst tveggja vikna fyrirvara með auglýsingu á heimasíðu félagsins, með auglýsingu sem hengd upp á aðgengilegum stað, auk annarra samfélagsmiðla að mati stjórnar. Í fundarboði skal vísað til laga félagsins um dagskrá.

Breytingatillögu 1 var hafnað

Breytingatillaga 2Aðalfund skal halda í september ár hvert. Til hans skal boðað með minnst tveggja vikna fyrirvara með auglýsingu á heimasíðu félagsins,með auglýsingu sem hengd upp á aðgengilegum stað, auk annarra samfélagsmiðla að mati stjórnar. Í fundarboði skal vísað til laga félagsins um dagskrá.

Breytingatillaga 2 var samþykkt.

________________________________________________________________________________________

5. Lagt er til að ný 8. gr. laganna hljóði svo:

„Stjórn félagsins skipa sjö menn: Formaður, gjaldkeri, ritari, varaformaður og þrír meðstjórnendur. Kjörtímabil stjórnarmanna er eitt ár og fer kjör fram á aðalfundi. Láti fleiri en einn stjórnarmaður  af störfum á kjörtímabilinu skal eins fljótt og auðið er kjósa um nýja menn á félagsfundi. Munu umboð þeirra til starfa gilda fram að næsta aðalfundi.

Stjórnir skiptir með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund

Fundargerð stjórnarfunda skal rituð á hverjum fundi og lesin á næsta fundi. Útdrættir fundargerða skulu birtir á vefsíðu félagsins.”

Breytingatillaga var lögð fram:

Stjórn félagsins skipa sjö menn: Formaður, gjaldkeri, ritari, varaformaður og þrír meðstjórnendur. Kjörtímabil annara en formans er 2 ár og skal kosið um 3 sæti auk formanns á hverjum aðalfundi. Láti fleiri ern einn af störfum einhverra hluta vegna á kjörtímabilinu skal eins fljótt og auðið er kjósa um nýja menn á félagsfundi til bráðabirgða fram að næsta aðalfundi og skulu Þeir sem þannig eru kosnir inn hafa full réttingi og skyldur sem stjórnarmenn. 

Stjórnin skiptir með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund.

Fundargerð stjórnarfunda skal rituð á hverjum fundi og lesin á næsta fundi. Útdrættir fundargerða skulu birtir á vefsíðu félagsins.”

Breytingatillagan var samþykkt

________________________________________________________________________________________

6. Lögð er til eftirfarandi breyting á 9. gr:

4. mgr bætist við: ,,Formaður skal ekki sitja í stjórn nefnda, ráða eða deilda félagsins”

Tillaga 6 var samþykkt óbreytt.

________________________________________________________________________________________

7. Lagt er til að 10. gr. orðist svo:

,,Ritari ritar allar fundargerðir stjórnarfunda og undirritar þær ásamt formanni“.

Tillaga 7 var samþykkt óbreytt.

________________________________________________________________________________________

8. Lagt er til að 11. gr. orðist svo:

Gjaldkeri félagsins hefur yfirumsjón með innheimtu félagsgjalda  og fjárreiðum félagsins í samráði við framkvæmdastjóra í samræmi við lög og góða reikningsskilavenju.

Gjaldkeri félagsins, í samráði við framkvæmdastjóra, skal fyrir aðalfund ár hvert gera eða láta gera árshlutareikning um hag félagsins og leggja fyrir aðalfund. Endurskoðaður ársreikningur, í samræmi við lög, skal lagður fyrir framhaldsaðalfund til úrskurðar."

Gjaldkeri, í samráði við framkvæmdastjóra félagsins, lætur skila reikningsyfirliti fyrir nefndir félagsins í samræmi við lög og reikningsskilavenju. Skulu nefndir skila framkvæmdastjóra reikningsyfirlitum eigi síðar en mánuði fyrir aðalfund“.

Breytingatillaga var lögð fram.  Í stað endurskoðaður ársreikningur skuli standa staðfestur ársreikningur

Tillaga 8 var samþykkt með ofangreindum breytingum.

________________________________________________________________________________________

9. Lagt er til að eftirfarandi ný grein bætist við lögin, sem 12. gr. Núverandi 12. gr. verður þá 13. gr. o.s.frv.

„ Stjórn hefur heimild til að ráða framkvæmdastjóra fyrir félagið. Framkvæmdastjóri skal ekki eiga sæti í stjórn né sæti í lögbundnun nefndum félagsins. Stjórn semur við framkvæmdastjóra um starfsskyldur og endurgjald fyrir starfann. Gera skal skriflegan ráðningarsamning við framkvæmdastjóra. Framkvæmdastjóri heyrir beint undir stjórn félagsins og framkvæmir ákvarðanir stjórnar og gætir þess að starfsemi félagsins sé í samræmi við stefnu stjórnar og lög félagsins.

Framkvæmdastjóri annast jafnframt daglegan rekstur félagsins og heldur utan um fjármál þess í samráði við gjaldkera stjórnar. Meðal helstu starfsskyldna framkvæmdastjóra teljast jafnframt, umsjón með útleigu, samskipti við stjórn, félagsmenn, nefndir félagsins, fjölmiðla, og hagsmunaaðila. Viðburða- og verkefnastjórnun vegna atburða á vegum félagsins og þjónustu við félagsmenn og utanumhald um félagatal.

Stjórn félagsins kveður nánar á um starfsskyldur framkvæmdastjóra í ráðningarsamningi hans.

Framkvæmdastjóri situr fundi stjórnar, að hennar ósk, en hefur ekki atkvæðisrétt og er ekki stjórnarmaður.

Tillaga 9 samþykkt óbreytt.

________________________________________________________________________________________

10. Lagt er til að núverandi 17. gr., verðandi 18. gr. verði breytingartillaga nr. 7 samþykkt,  orðist svo:

„Nefndum, deildum og  ráðum ber að fara eftir sérstökum starfslýsingum sem samþykktar eru af stjórn félagsins. Stjórn endurskoðar starfslýsingar eftir því sem þurfa þykir, að fengnum umsögnum eða tillögum frá viðkomandi nefndum. Stjórn skal samþykkja starfslýsingar á fundi sínum.

Tvær breytingatillögur komu fram

Breytingatillaga 1: „Nefndum, deildum, ráðum og framkvæmdastjóra ber að fara eftir sérstökum starfslýsingum sem samþykktar eru af stjórn félagsins. Stjórn endurskoðar starfslýsingar eftir því sem þurfa þykir, að fengnum umsögnum eða tillögum frá viðkomandi nefndum og framkvæmdastjóra. Stjórn skal samþykkja starfslýsingar á fundi sínum og birta þær á vef.

Breytingatillögu 1 var hafnað.
Breytingatillaga 2: „ „Orðin „og birta þær á vef“ bætist við tillögu laganefndar.

Breytingatillaga 2 var samþykkt

________________________________________________________________________________________

11. Lagt er til að starfslýsing fyrir stjórn Sörla verði fjarlægð úr lögum félagsins.

Tillaga 11 samþykkt óbreytt.

________________________________________________________________________________________

Um nánari skýringar á efni lagabreytinga og tillögum Laganefndar Sörla sem samþykktar voru er vísað til tillagna Laganefndar og greinargerðar, sem birt er á vef félagsins.

 

Önnur mál sem félagið varðar.

Sigrún: Er tiltölulega ný í hverfinu og varð fyrir sjokki hvað mikill ágangur er á reiðvegum af vélknúnum farartækum

Brynhildur: Tók undir orð Sigrúnar og hefur áhyggjur af öðrum farartækjum á reiðvegum. Fólk segist ekki vita að þetta séu reiðvegir. Vantar að merkja reiðvegi betur.

Beint til stjórar að vera vakandi varðandi vaxandi ágang vélknúinna tækja á reiðvegum og fara í einhverjar framkvæmdir s.s. merkingar til að verjast þessu.

Gunnar: Furðar sig á því að ekki hafi verið upplýst um það hverjir gæfu kost á sér til stjórnarsetu eða formanns.  Darri sagði þetta góð hugmynd en í raun segir ekkert til um það í lögum félagsins að fólk þurfi að upplýsa með einhverjum fyrirvara.  Það má hver sem er gefa kost á sér á aðalfundi.  Það var hins vegar auglýst í dagskrá hversu mörg sæti væru laus.

Freyja: hefur áhyggjur á mótorhjólum á reiðvegum og beinir til stjórnar að skoða þessi mál.

Ingibergur: Er allaf að mæta hjólreiðamönnum á reiðvegum. Meira segja var eitt sinn búið að skipuleggja ratleik hjólreiðamanna á reiðvegum. Eggert: Búið er að ræða við Hafnarfjarðarbæ um þetta vandamál og eru þeir búnir að lofa að ræða við hjólreiðasamtök.

Brynhildur:  Er eitthvað á dagskrá að lýsa upp fleiri reiðvegi s.s. stóra skógarhringinn.  Eggert: Nei það er ekki á dagskrá hjá Hafnarfjarðarbæ eins og er og ekkert samtal stjórnar við Hafnarfjarðarbæ um það.

Brynhildur:  Er snjómokstur á vegum Sörla. Já

Thelma þakkaði félagsmenn fyrir góðan fund og gaf nýjum formanni orðið.  Atli Már þakkar fyrir traustið sem félagsmenn sýndu honum hlakkar til að vinna að málefnum Sörla á næsta ári.

Góðum og öflugum aðalfundi félagsins var slitið kl. 00:30.

Birtingardagsetning: 
þriðjudaginn, 30. október 2018 - 12:04
Viðburðardagsetning: 
þriðjudaginn, 30. október 2018 - 12:04
Myndir: 
Sörli Hestamannafélag, Íþrótt, Lífstíll
Sörli Hestamannafélag, Íþrótt, Lífstíll