Að gefnu tilefni.
-vegna skrifa á félagsmenn Sörla um snjómokstur
Fyrir nokkrum dögum birtist færsla á fb hópnum ”félagsmenn Sörla”, sem stjórn Sörla bað um að væri fjarlægð og var það gert af umsjónarmanni og eiganda síðunnar, sem jafnframt er stjórnarmaður í Sörla. Ástæða þess að stjórnin bað um að færslan væri fjarlægð var sú að í henni var vegið að framkvæmdastjóra félagsins persónulega og í raun gefið í skyn að framkvæmdastjórinn væri ekki hæf í starfi. Hún var ”tögguð” í færslunni þannig að færslan birtist einnig á hennar persónulegu síðu.
Það var ágætis brýning til stjórnarinna sem fram kom í pistlinum, sem stjórnin bað um að væri fjarlægður. Áminningar um að standa sig í viðræðum við Hafnarjarðarbæ þegar óskað er eftir stuðningi við snjómokstur á félagssvæðinu. Gagnrýni á stjórnina er ekki á neinn hátt ástæða þess að óskað var eftir því að umrædd skrif væru fjarlægð. Þeir sem nú eru í stjórn gáfu kost á sér til stjórnarsetu og standa og falla með sínum verkefnum og áherslum.
Hins vegar er það þannig að framkvæmdastjóri félagsins er eini starfsmaður þess. Þetta er vinnan hennar, hennar lifibrauð. Og henni sinnir hún framúrskarandi vel, það vita þeir sem eitthvað til þekkja. Það er engan veginn við hæfi að persónulegar aðdróttanir séu settar fram á síðunni ”félagsmenn Sörla”. Ef einhver hefur eitthvað við störf eða hæfni framkvæmdastjórans að athuga þá á að beina slíku beint til stjórnar, sem fjallar um þau erindi sem berast á mánaðarlegum fundi sínum, eða fyrr ef tilefni er til.
Mig langar að velta upp samviskuspurningu í þessum pistli. Finnst einhverjum eðlilegt að starf einnar manneskju sé með óvægnum hætti til umræðu í hóp sem inniheldur rétt tæplega 1.000 manns. Myndir þú sem lest þetta vilja að þitt starf væri undir slíkri smásjá. Að þú þyrftir að sætta þig við að allt sem sagt væri um þig þarna ætti að standa, hversu rétt eða málefnalegt sem það er. Er til of mikils mælst að fólk bara sé kurteist og sýni virðingu fyrir öðrum og þeirra störfum. Er eðlilegt að þessháttar skrif fái að standa á vefnum. Mynduð þið vilja lesa slíkt um ykkur.
Á engan hátt er starf framkvæmdastjóra Sörla opinbert starf eða framkvæmdastjórinn opinber persóna. Persónulegar ávirðingar, algjörlega innistæðulausar, eiga sér enga réttlætingu á vettvangi fb.
Mig langar að lokum að nefna það hér að hafi ég gert eitthvað rétt sem formaður þessa félags þá var það að leggja mitt að mörkum til að ráða núverandi framkvæmdastjóra til starfa. Hún stendur sig frábærlega í sínu starfi, eins og ég veit að langflestir Sörlamenn vita og hafið fundið fyrir.
Um snjómokstur er síðan hægt að ræða síðar.
Vöndum okkur í samskiptum.
F.h. stjórnar Sörla
Atli Már