Birtingardagsetning: 
föstudaginn, 11. maí 2018 - 8:40

Kæru félagsmenn

Undirbúningur fyrir Hafnarfjarðarmeistaramót Sörla - opna íþróttamótið hófst fyrir þó nokkru en það er að mörgu að huga við skipulagningu á svo stóru móti.

Mótanefnd og aðrir í undirbúningsnefndinni hittust fyrir rúmri viku síðan og í kjölfarið var íþróttamótið auglýst og skráning hófst.

Nefndarmenn hófust strax handa við að leita að styrktaraðilum því svona mót eru mjög fjárfrek og mikilvægt að fá góða styrktaraðila.  
Það er skemmst frá því að segja að HS Orka verður aðalstyrktaraðili og þökkum við þeim kærlega fyrir.  

 

Svo höfum við fengið aðra góða styrktaraðila til að styrkja hvern flokk fyrir sig og munum við að sjálfsögðu segja frá þeim innan tíðar og þökkum við þeim kærlega fyrir.

Í vikunni hefur nefndin farið á námskeið vegna nýs Sportfengs. Það hefur verið töluverð áskorun að halda mót í ár þar sem um nýtt kerfi er að ræða og ekki alveg búið að sníða alla vankanta af því.  Við í undirbúningsnefndinni höfum reynslu af demo útgáfunni sem við prófuðum 2014-2015 en þá var netið mest að stríða okkur.  Nú er hins vegar komið betra netsamband svo við vonum að þetta muni ganga allt vel.  Næstkomandi mánudag verður haldið lítið æfingamót - með engum hestum - en þar mun nefndin prófa að halda mót í Sportfeng og á netinu.

Einnig hefur nefndin verið að leita að öflugum sjálfboðaliðum til að vinna á mótinu og er ánægjulegt að segja frá því að margir hafa boðið sig fram svo samkvæmt því ætti ekki að verða neinn skortur á fólki.  Það vantar í örfá hlutverk s.s. fulltrúa knapa og einhverja sem hafa áhuga og getu til að vera upphitunarhestar.  Allar tillögur vel þegnar.

Eins og margir hafa eflaust tekið eftir þá verður boðið upp á fimi - frjáls aðferð.  Þetta var ákveðið í samstarfi við fræðslunefnd Sörla þar sem nefndin hafði fengið margar fyrirspurnir um þessa grein. Sigurður Ævarsson mun kynna þessa grein á mánudag en fræðslunefndin mun auglýsa það betur.  Á því námskeiði getur fólk skráð sig í greinina fyrir mótið.

Önnur skipulagning er í fullum gangi og það er endalaust að bætast á verkefnalistann og vinna að honum. Unnið er að því að raða á vaktir, búa til tengiliðaskrá, hafa samband við dómara o.fl. o.fl.

Við í undirbúningsnefndinni hlökkum til og munum leggja okkur fram til að halda gott mót fyrir keppendur.

Fyrir hönd nefndarinnar, Valka Jóns.

Sörli Hestamannafélag, Íþrótt, Lífstíll