Sörlafólk blótaði Þorra s.l. helgi með miklum hátíðarhöldum. Yfir 50 manns mætti í þorrareið sem margir hófu hjá henni Stebbu okkar í Stebbukaffi á Sörlastöðum.
Reiðmenn riðu sem leið lá stóra Hraunhringinn, í áningu var boðið upp á hákarl og brennivín og lundinn var sérstaklega létt á félagsmönnum í blíðunni.
Þorrablót Sörla var síðan um kvöldið en þangað mætti um 130 manns í miklar kræsingar og dansað var fram á rauða nótt.
Böggla- og folatollauppboðið var á sínum stað og fóru margir glaðir heim eftir að hafa gert kjarakaup. Það er deginum ljósara að framvegis má sjá fallega útbúna, vel fótsnyrta reiðmenn á rétt fóðruðum hestum á reiðgötunum svo ekki sé minnst á hestakost framtíðarinnar þegar útkoman úr folatollunum fer að sjást undir Sörlafólki. Við teljum jafnvel að formaðurinn verði miklu betur ríðandi eftir nokkur ár þar sem að hann keypti sér a.m.k. tvo folatolla undir mikla eðal gæðinga.