Birtingardagsetning: 
þriðjudaginn, 2. apríl 2019 - 9:27

Í dag kveðjum við Sörlamenn dyggan og góðan félaga Svein Jónsson en hann verður jarðsettur frá Viðistaðakirkju kl. 15 í dag þriðjudaginn 2. apríl 2019.

Svenni, eins og hann var alltaf kallaður, féll frá alltof snemma eftir stutta en harða baráttu við krabbamein. Hann  var einn af burðarásum félagsins á miklum uppbyggingatímum hjá okkur í Hestamannafélaginu Sörla. Hann var m.a. einn af stofnendum íþróttadeildar Sörla um 1980. Hann var frumbyggi í Hlíðarþúfum og seinna á nýja svæðinu okkar við Sörlaskeið.

Svenni var mjög öflugur í starfinu og kom að öllum hliðum þess. Hann var varaformaður Sörla í nokkur ár og starfaði í mörgum nefndum félagsins. Hann hélt t.d. fyrsta reiðnámskeiðið sem haldið var þá í nýrri reiðhöll hjá okkur að Sörlastöðum. Hann var duglegur keppandi og varð t.d. íslandsmeistari í tölti, hann keppti á Heimsleikum íslenska hestsinns og var þar í úrslitum. Hann var dómari af miklum dugnaði og var m.a. yfirdómari á HM ásamt því að vera afskaplega duglegur í fræðslumálum dómara. Svenni ver hestamaður af Guðsnáð og félagsmálamaður góður og því eiga Sörlamenn honum mikið að þakka. Hugur okkar allra er hjá fjölskyldu og venslafólki Svenna. Hafðu mikla þökk fyrir góðar minningar og þitt mikla framlag til að efla og styrkja Hestamannafélagið Sörla.

Sörli Hestamannafélag, Íþrótt, Lífstíll