Birtingardagsetning: 
þriðjudaginn, 14. janúar 2020 - 15:59

 

Við vitum það að við vorum helst til sein að byrja að moka í vetur og hefðum mátt vera viku fyrr með fyrsta mokstur. Ástæða þess var sú að Zetorinn var upptekinn í öðru verkefni og ekki tilbúinn þegar fyrsta skotið kom.  Eftir að við byrjuðum mokstur þá höfum við svo sannarlega gert okkar besta í því að halda reiðvegunum góðum.

Í gær, mánudag, var jú ágætis snjóþekja á vegunum okkar en margir reiðmenn höfðu gaman af því að láta hrossin aðeins göslast í gegnum skaflana og einhverjir sögðu að hrossin hefðu líka haft gaman af.

Í gærmorgun vorum búin að ætla okkur að ryðja reiðveginn fyrir hádegi en veðurspáin leit ekki þannig út að það borgaði sig að fara af stað. Það var því tekin meðvituð ákvörðun um að fara ekki í mokstur þó svo að veðurspáin hafi ekki gengið eftir.

Stjáni mokaði samt neðri hringinn strax seinnipartinn í gær þegar að við sáum að veðrið væri ekki að ganga eftir og Addi tók svo efri hringinn fyrir hádegi í dag, þannig að nú eru báðir hringirnir okkar greiðfærir.

Síðastliðinn vetur reyndum við að lesa í aðstæður hverju sinni og meta út frá veðurspám hvenær væri best að ryðja vegina. Það er jú líka þannig að stundum borgar sig að bíða aðeins því það er mjög vont að vera nýbúin að ryðja og allt fyllist af snjó því þá koma vondar traðir og hærri kantar sem skapar bara meiri vinnu fyrir okkar ágætu menn.

Það er svo sannarlega engin einokun í gangi á vélinni en við vitum að hún fer betur ef færri en fleiri eru að vinna á henni, Stjáni er búinn að véla tvo ef ekki þrjá öfluga menn með sér. Þeir vega og meta hvenær þeir álíta að best sé að ryðja vegina.

Að lokum, svo því sé haldið til haga þá sjá hestamannafélögin Fákur og Sprettur alfarið um að ryðja sína reiðvegi, bæjarfélögin koma ekkert að því hjá þeim.

Sörli Hestamannafélag, Íþrótt, Lífstíll