Birtingardagsetning: 
þriðjudaginn, 3. desember 2019 - 19:17
Frá: 

AF NÝJUM HESTHÚALÓÐUM

NEFHÁRAKLIPPUM

500 % FÁRÁNLEGUM HÆKKUNUM

OG SKEMMTILEGU FÓLKI

 

Svarti föstudagurinn, sem í mínum huga er ömurlegt fyrirbæri, næstum því verri en suðvestanátt í Grundarfirði, hafði það samt í för með sér fyrir mig persónulega, að jólavinur minn í vinnunni gaf mér rafmagnsnefháraklippur. Þar sem ég stend í stórræðum fyrir framan baðherbergisspegilinn og kemst að því í leiðinni að jólavinur minn þekkti mig meira en mig grunaði, fæ ég símtal frá stjórnarmanni í Sörla. Stjórnarmaðurinn spyr mig hvort ég hafi séð umræðu á netinu um ákvörðun stjórnarinnar um hækkun á gjaldskrá fyrir reiðhöll Sörla. Nei ég hafði ekki séð hana, enda staðið í stórræðum frá því ég fékk þessar nefháraklippur. Áður en ég tala meira um nefháraklippur og gjaldskrárhækkanir í reiðhöllina okkar langar mig samt fyrst að ræða aðra mikilvæga og spennandi hluti.

 

ÁRSHÁTIÐ UNGA FRÁBÆRA FÓLKSINS OG ÁRSHÁTIÐ SKEMMTILEGA FÓLKSINS

Árshátíð Sörla fyrir bæði börn, unglinga og fullorðna voru haldnar 21. og 22. september. Yfir 40 börn og ungmenni mættu fimmtudaginn 21. september. Stjórn og framkvæmdastjóri sáu um að elda fyrir krakkana þriggja rétta veislumat og veitt voru verðlaun fyrir árangur ársins. Við sem vorum þarna með krökkunum erum ótrúlega sátt við það hvernig tókst til. Það var sungið, dansað og hlegið. Hreinlega frábært kvöld með þeim hressu og flottu krökkum sem mættu.

Eftir nokkurt hlé héldum við Sörlamenn loks aftur árshátið og uppskeruhátið sem bragð var af. Yfir 150 manns voru í salnum. Maturinn geggjaður og mikið lagt í alla umgjörð. Dansgólfið fullt frá fyrstu tónum hljómsveitarinnar fram að lokun. Svona viljum við hafa árshátíð. Næsta ár verðum við enn fleiri. Við óskum þeim sem hlutu viðurkenniningar til hamingju. Það er svo þannig að ekki eru allir sammála um það eftir hverju á að fara þegar veitt eru verðlun. Reglurnar sem farið var eftir eru hins vegar skýrar. Hvort við viljum hins vegar hafa þær svona eða einhvernvegin öðruvísi má svo ávallt deila um. Stjórn ætlar á nýju ári að setja saman ráðgjafahóp sem á að fá það hlutverk að fara yfir núverandi reglur og koma með tillögur til stjórnarinnar strax í janúar 2020. Síðan er það markmið stjórnarinnar að endurskoðaðar reglur verði strax auglýstar í janúar/febrúar þannig að í upphafi árs liggi reglurnar fyrir.

 

SPENNANDI NÝJAR HESTHÚSALÓÐIR

Það verður að segjast að þær hesthúsalóðir sem nú standa til boða á félagssvæði Sörla hafa að mati stjórnarinnar ekki verið nægilega aðgengilegar og skipulag þeirra ekki verið í takt við þær þarfir sem félagsmenn hafa í dag. Stjórnin hefur því unnið að því í góðri samvinnu við Hafnarfjarðarbæ, með aðstoð Sigríðar Sigþórsdóttur og Halldóru Einarsdóttur að breyta núverandi skipulagi byggingarlóða.

Markmið stjórnarinnar með breytingum á hesthúsalóðum eru þessi. Í fyrsta lagi viljum við lækka byggingarkostnað, eins og hægt er með þeim ráðum sem skipulag bíður uppá. Í öðru lagi viljum við auka fjölbreytileika þeirra húsa sem hægt er að byggja. Í þriðja lagi viljum við fjölga minni húsum á kostnað stórra hesthúsa 24-48 plássa húsa, sem lítil eftirspurn er eftir í dag. Slík hús verða þó áfram möguleiki, en færri. Í fjórða lagi er það mikilvægt markmið að hesthúsin verði eftirsóknarverður kostur fyrir fjölskyldur, að einstaklingar geti líka sjálfir byggt sín hús, tekið sig saman um byggingu, t.d. parhús með plássi fyrir 12 hesta hvort hús. Það er eftirsóknarvert að mati stjórnarinnar að geta sýnt teikningar að þegar hönnuðum húsum, eða hugmynd að húsum. Þannig að auðvelt sé byrja. Stjórnin mun kappkosta að svo verði. Þetta nýja skipulag sem nú er á lokametrunum í vinnslu verður síðan auglýst með formlegum hætti af Hafnarfjarðarbæ í desember eða byrjun janúar 2020. Ég skora á félagsmenn að kynna sér vel skipulagstillöguna þegar hún verður auglýst og athuga hvort draumahúsið þeirra gæti ekki leynst þar í kortunum.

Í nýju skipulagi munum við einnig hnika til byggingarreit reiðhallarinnar vegna breyttrar hönnunar. Endilega kynnið ykkur tillöguna þegar hún verður auglýst.

Ég sé gríðarlega spennandi tíma framundan fyrir Sörla þegar nýjar og breyttar lóðir koma í sölu. Við erum að hugsa hlutina aðeins uppá nýtt. Sala á hesthúsalóðum mun flýta fyrir byggingu nýrrar reiðhallar og því er mikilvægt að lóðirnar uppfylli kröfur hestamanna. Með breyttri áherslu og hugsun í skipulaginu fjölgum við ekki einungis hestum á félagssvæðinu við fáum fleiri félagsmenn, meira af fjölskyldufólki sem á sín hús og stundar hestamennskuna saman.

 

UM 500 % HÆKKANIR OG FLEIRA RUGL

Þegar ég hafði drepið á nefháraklippunum kíkti ég á umræðuna um gjalskrárhækkunina vegna reiðhallarinnar á spjallinu, Félagsmanna Sörla. En fyrir þá sem ekki vita hafði ný stjórn samþykkt hækkun gjaldskrár fyrir notkun reiðhallarinnar. Þar með fylgdi stjórnin eftir samþykkt fyrri stjórnar sem samþykkt hafði það sama án þess að hækkunin hefði komið til framkvæmda. Í fyrsta lagi er rétt að taka strax fram að áherslur um aukinn opnunartíma í reiðhöll fyrir hinn almenna félagsmann munu sjást í vetur. Í fyrra höfðum við bókað höllina of mikið fyrir námskeið, viðburði ofl. Við fundum fyrir því og bætum þar úr í vetur.

Tal um gríðarlega prósentuhækkanir, sem hækkanirnar vissulega eru, segja að mínu mati bara engan veginn rétta sögu. Staðreyndin var sú að lyklagjaldið okkar var allt, allt of lágt. Mig langar að nefna dæmi. Aðgangslykil B kostaði áður 3.000 og veitti aðgang að höllinni frá 06:00 – 08:00 og frá 14:00 - 00:00. Sörli á um og yfir 100 milljónir fjárfestar í reiðhöllinni. Á hverju ári leggur félagið til hundruðir þúsunda til að viðhalda reiðhallargólfinu. Núna síðustu vikurnar hefur framkvæmdastjórinn verið að þrífa og mála bak við áhorfendabekkina. Reglulega hreinsar hún upp hestaskít eftir félagsmenn sem hafa ekki komist af baki til að hreinsa upp eftir hesta sína. Rakað er frá böttum með hrífu og gólfið er vökvað mjög reglulega og skítatunnur tæmdar. Einn dag í þessari viku verður höllin lokuð, meðan tveir sjálfboðaliðar úr tækjanefnd, munu sjá um að rífa upp undirlag gólfsins, með tæki sem þeir sjálfir smíðuðu, en gólfið er aftur orðið hart þannig að hross eru farin að detta og slysahætta farin að skapast. Gólfinu og höllinni hefur að mínu mati sjaldan verið eins vel sinnt. Nú spyr ég einfaldlega er virkilega einhver ”í alvörunni” sem telur að sanngjarnt og eðlilegt verð fyrir reiðhallarlykil B á ári, séu 3000 krónur. Önnur spurning fyrir þá sem telja 3000 krónur eðlilegt verð. Hvað finnst þeim um að þeir fjölmörgu aðilar sem einfaldlega kjósa að ríða út og nota ekki höllina séu að niðurgreiða notkun með sínum félagsgjöldum, fjárfestingum félagsins, sjálfboðaliðum og starfsmanni félagsins, sem samt hefur nóg annað að gera við að gera líf okkar Sörlafólks einfaldara og betra? Er það sanngjarnt að þeir sem nota höllina taki til sín stóran hluta af tekjum félagsins án sanngjarnrar greiðslu. Ég segi NEI. Reiðhallarlykill B, mun núna kosta 15.000 krónur, frá og með 1.1.2020. Glöggir stærðfræðingar sjá þar 500% hækkun. Það er rétt og mun réttlátara. Það var mat stjórnarinnar að þeir sem nota höllina ættu að borga sanngjarnara gjald fyrir notkunina. Það dugar sennilega ekki fyrir kostnaði, en er nær lagi en það gjald sem greitt er í dag. Stjórnin mun opna höllina meira fyrir félagsmenn, það er áhersla stjórnarinnar. Það er ekki vani minn að standa í miklu svona röfli,,,,,, en ég verð samt að segja að umræðan á Félagsmenn Sörla var leiðinlegt afturhvarf til fortíðar. Félagsmenn eiga samt sem áður endilega að minna á sig og halda stjórninni við efnið. En ég er líka aðdáandi staðreynda. Staðreyndin er sú að Sörli er hvorki með dýrustu aðgangslyklana á landinu né er það stefnan.

Að neðan er samanburðartafla fyrir önnur hestamannafélög og gjaldskrár þeirra. Við gerum eins og við getum með okkar litlu höll, reynum að samræma opnun fyrir félaga og námskeið og viðburði þar til við fáum nýja og stærri höll. Þangið til munu þeir sem nota höllina borga hóflegt og sanngjarnt verð fyrir notkun. Ný gjaldskrá tekur gildi 1. janúar 2020.

Að lokum mæli ég svo eindregið með því við vini mína karlkyns Sörlamenn, sem komnir eru hátt á fimmtugsaldurinn að þeir óski eftir rafmagnshefháraklippum í jólagjöf, svona með hestadótinu.

Sörlakveðja og gleðileg hestajól

Atli.

 

Smellið á pdf skjalið og skoðið verðsamanburðinn.

Sörli Hestamannafélag, Íþrótt, Lífstíll