Birtingardagsetning: 
mánudaginn, 28. maí 2018 - 15:04

Um auglýsingu úrtöku og gæðingamóts Sörla.

Dagsetning gæðingamóts Sörla var fyrst auglýst með birtingu vetrardagskrár félagsins í desember 2017.  Þar með hafði mótið verið auglýst á opinberum vettvangi og ákvæði 2.8.1 í lögum og reglum LH uppfyllt. Samhliða birtingu vetrardagsrkár er mótið tilkynnt til LH, dagsetningin frátekin og auglýst á vef LH. Endanlegur dagafjöldi móts er svo ákveðin þegar nær dregur og auglýstur síðar, dagafjöldi móta tekur m.a. mið af fjölda skráninga. Fyrirkomulag mótsins er síðan nánar auglýst með auglýsingu sem birt var á vef Sörla og fb síðu Sörla þann 24. maí. Auglýsing mótsins er í samræmi við auglýsingar fjölmargra annarra hestmannafélaga á sínum úrtökum. Dagsetning gæðingamóts Sörla hefur því legið fyrir í rúmlega 5 mánuði.

Fyrirkomulag úrtöku.

Varðandi fyrirkomulag gæðingamóts Sörla og tveggja umferða  úrtöku fyrir landsmót 2018. Skal það tekið fram að mótanefnd Sörla kom fram með hugmyndina um tvær umferðir úrtöku til stjórnar Sörla. Eftir umræður samþykkti stjórnin tillöguna einróma. Rökin fyrir því að halda tvöfalda úrtöku eru þau helst að með því fyrirkomulagi gefst börnum, unglingum og ungmennum kostur á því að fá tvö tækifæri til að komast á landsmót þó eitthvað hafi mistekist í fyrstu tilraun. Taka má fram að þetta fyrirkomulag tíðkast í fjölmörgum hestamannafélögum og hefur þótt gefast vel og verið til bóta. Því eru fleiri félög að bjóða upp á þessa leið. Einnig þótti mótanefndinni og stjórn fyrirkomulagið veita öllum betra tækifæri en ella til að ná sínum besta árangri fyrir Sörla.

Gæðingamót Sörla – Dómarar – Þátttökugjöld.

Rétt er að taka fram að um eitt mót er að ræða, þ.e.a.s. Gæðingamót Sörla, auk þess eru riðnar tvær umferðir í úrtöku fyrir landsmót 2018. Í fyrri umferð úrtöku sem haldin verður föstudaginn 1. júní verður einungis riðin forkeppni, seinni umferð úrtöku er svo Gæðingakeppni Sörla haldin 2. – 3. júní. Þá eru jafnframt riðin úrslit gæðingakeppninnar. Þeir keppendur sem ríða seinni umferð úrtöku og jafnfram eru keppendur á Gæðingamóti Sörla eru gjaldgengir í úrslit mótsins.

Sömu dómarar verða í báðum umferðum úrtökunnar og á gæðingamótinu. GDLH úthlutar dómurum á mót án aðkomu Sörla. Varðandi skráningu í úrtöku fyrir landsmót þá er heimilt að skrá sig einungis í eina umferð úrtöku. Gjald fyrir fyrri umferð A og B flokk er kr. 3.500. Ungmennaflokkur kr. 1.500. Unglinga og barnaflokkur kr. 0 . Skráningargjald fyrir Gæðingamót Sörla A og B flokkar opinn og áhugamenn kr. 5.500. Ungmenni, unglingar og börn kr. 4.500. Skeið 100m kr. 3.000. Unghrossakeppni kr. 5.500. Almennt um þátttökugjöld fyrir úrtöku fyrir landsmót og gæðingamót Sörla er rétt að taka fram að stefna mótanefndar og stjórnar er sú að halda gjöldum fyrir börn, unglinga og ungmenni í algjöru lágmarki. Hins vegar er það líka stefnan að mót standi undir kostnaði.

F.h. mótanefndar og stjórnar Sörla.