Í liðinni viku var framkvæmd veruleg endurbygging á reiðhallargólfinu. Nýtt yfirlag er á gólfinu, gólfflís, sem er viðarkurl frá Furuflís. Gólf reiðhallarinnar var orðið óslétt og of hátt og var það unnið vel niður, heilmikið magn af efni tekið út, undirlagið sléttað og valtað og nýtt yfirlag sett inn. Þessi breyting er verulega til bóta fyrir starfsemi í reiðhöllinni og mikið fagnaðarefni.
Framkvæmd sem þessi er afar kostnaðarsöm og það er undir okkur Sörlafélögum komið að ganga vel um og tryggja góða endingu gólfsins. Því er nauðsynlegt að ALLIR sem fara með hesta í höllina hreinsi úr hófum hesta áður en þeir fara inn og hreinsi jafn óðum upp allan skít sem fellur á gólfið. Stjórn og starfsmenn munu koma fyrir verkfærum og útbúnaði til þessa og óskum við eftir góðu samstarfi við Sörlafélaga um að halda nýja gólfinu alltaf góðu.
Til hamingju með nýtt reiðhallargólf Sörlafélagar!