Birtingardagsetning: 
sunnudaginn, 18. nóvember 2018 - 11:37

Ágætu húseigendur og leigendur í Hlíðarþúfum.  
Hér má sjá lög og reglur er gilda um samfélagið í Hlíðarþúfum sem samþykkt var á aðalfundi 2000. 

Biðjum við hestamenn með hesta í Hlíðarþúfum að virða þessar reglur.  (Prentvænt skjal hér að neðan)
 

Lög og reglur
    
Umgengisreglur í hesthúshverfinu að Hlíðarþúfum
SAMÞYKKT
Um umgengni og þrifnað í hesthúsahverfi á félagssvæði Sörla að Hlíðarþúfum.
 
Gildissvið
1. gr.
Samþykkt þessi gildir um hesthúsahverfið á félagssvæði Sörla að Hlíðarþúfum í Hafnarfirði.
 
Umsjón með framkvæmd
2. gr.
Um eftirlit með framkvæmd samþykktar þessarar fer samkvæmt lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit.
 
Sameiginleg gerði
3. gr.
Hross skulu aðeins skilin eftir úti í sameiginlegu gerði ef hirðir er viðstaddur. Ef margir hirðar koma á sama tíma skulu þeir taka tillit hver til annars og ekki vera með hesta lengur úti en nauðsyn krefur.
Bannað er að gefa hrossum út í sameiginleg gerði.
Ef hestum er kembt úti í gerði skulu hirðar sjá til að ekki liggi eftir hárflyksur.
Sérstök aðgæsla skal höfð gagnvart graðhestum sem eru á svæðinu. Gæslumönnum þeirra ber að sýna öðrum hesteigendum sérstaka tillitsemi varðandi meðferð graðhests. Óheimilt er að hleypa graðhestum út í sameiginlegt gerði ef aðrir hestar eru þar fyrir og hirðir skal hafa samfellt eftirlit með graðhesti. Vilji aðrir húseigendur hleypa hestum sínum út í sameiginlegt gerði en graðhestur er þar fyrir skal graðhesturinn víkja og tekinn í hús.
 
Almenn umgengni
4. gr.
Þeir sem nota hesthús í hverfinu skulu ganga vel um umhverfið sitt. Bannað er að skilja eftir hverskonar rusl, eða annað óviðkomandi, utanhúss s.s. sagpoka, rúllubaggaplast, ónýtt hey eða heyrúllur, timbur og verkfæri.
Bannað er að geyma heyrúllur eða heybagga á svæðinu til lengri tíma. Hesthúseigendur skulu þó fá stuttan frest, tvo til þrjá daga, til að koma heyrúllum eða böggum á hús.
Urðun úrgangsefna í hesthúsahverfinu og öll brennsla þar er bönnuð.
Óheimilt er að losa ósekkjaðan spón á svæðið. Spónn skal fluttur sekkjaður eða í lokuðum umbúðum um svæðið þannig að hann valdi ekki óþrifnaði.
Bannað er að losa eða dreifa gömlu heyi um svæðið nema með sérstöku samþykki heilbrigðisfulltrúa á þau svæði sem hey nýtist til uppgræðslu.
Eigendur bera ábyrgð á leigjendum sínum hvað varðar alla umgengni í hesthúsahverfinu.

Útlit húsa og gerða
5. gr.
Litir húsa og gerða í hverfinu skulu vera samræmdir og samþykktir af bæjaryfirvöldum. Húsunum skal vera vel við haldið bæði hvað varðar málningu og annan frágang utanhúss s.s. hurðir, þakkantar, veggir og annað sem að útliti húsa snýr. Jarðvegur innan gerða og umhverfis þau, eftir því sem við á, skal vera malarborinn og ávallt haldið snyrtilegum.
 
Taðþrær
6. gr.
Taðþrær skulu þannig úr garði gerðar að þær valdi ekki mengun. Sérstaklega skal þess gætt að ekki geti lekið úr þeim. Umgengni um taðþrær, hreinsun þeirra og hreinsun hesthúsa skal vera með þeim hætti að ekki verði af óþrifnaður. Önnur uppsöfnun taðs en í taðþrær er stranglega bönnuð í hverfinu.
Stranglega er bannað að setja annan úrgang í taðþrær en hrossatað og moð sem hreinsað er úr hesthúsunum og umhverfis þau. Allar taðþrær skulu tæmdar og hreinsaðar eins oft og þörf krefur að mati heilbrigðisfulltrúa. Hreinsun skal fara fram á vegum Hafnarfjarðarbæjar.
 
Rotþrær
7. gr.
Salerni og önnur hreinlætistæki í hesthúsahverfinu skulu tengd við holræsakerfi hverfisins. Notkun og hreinsun rotþróa í hverfinu skal vera samkvæmt samþykkt um notkun og hreinsun rotþróa í Hafnarfirði.
 
Hestakerrur, vinnuvélar, bílar og gámar
8. gr.
Bannað er að geyma ógangfæra eða númerslausa bíla, gáma, vinnuvélar, óskráðar kerrur, palla eða hliðstæða hluti á svæðinu. Skráðar kerrur og léttikerrur skal geyma á þar til gerðu kerrusvæði. Bílum skal lagt á þar til gerð bílastæði. Bannað er að leggja bílum við gafla húsa eða þar sem hættu stafar af fyrir reiðmann.
 
Hundar
9. gr.
Hundahald og lausaganga hunda er stranglega bönnuð á svæðinu. Sjá nánar sjáreglugerð um hollustuhætti nr. 941/2002 og samþykkt um hundahald á Álftanesi, í Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi.
 
Önnur notkun húsa.
10. gr.
Ekki er heimil önnur notkun húsa í hverfinu en fyrir hesta, hey, félagsaðstöðu og annað sem hestamennsku viðkemur.
 
Brot og viðurlög
11. gr.
Með brot á samþykkt þessari og um valdsvið, þvingunarúrræði, málsmeðferð, úrskurði og viðurlög fer samkvæmt lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit nr. 81/1988, með síðari breytingum.
 
Staðfesting
12. gr.
Samþykkt þessi staðfestist hér með samkvæmt 22.gr. laga nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit til þess að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.
Samþykkt á húsfélagsfundi,
Hafnarfirði, 20. febrúar 1999
Húsfélagssamþykktir fyrir Húsfélag á félagssvæði Sörla í 
Hlíðarþúfum í Hafnarfirði
1. gr.
Húsfélagið heitir: Húsfélag á félagssvæði Sörla í Hlíðarþúfum.
2. gr.
Innan húsfélagsins starfa fimm sjálfstæðar heildir.

1. Hús félagsmanna sem hafa húsnúmer 101 til og með 124.
2. Hús félagsmanna sem hafa húsnúmer 201 til og með 228.
3. Hús félagsmanna sem hafa húsnúmer 301 til og með 328.
4. Hús félagsmanna sem hafa húsnúmer 401 til og með 428.
5. Sameiginlega í deild þau hús sem eru innan umráðasvæðis á félagssvæði Sörla við Hlíðarþúfur, en falla utan ofangreindra eininga.
Hægt er að fjölda deildum húsfélagsins ef húsum innan húsfélags á félagssvæði Sörla fjölgar og hentugra þykir að þau starfi sem fleiri en ein deild.

3. gr.
Tilgangur húsfélagsins og deild þess að er að stuðla að sameiginlegum hagsmunamálum eigenda hesthúsa við Hlíðarþúfur, í samræmi við lög um fjöleignarhús nr. 26/1994.

4. gr.
Stjórn húsfélags skal einkum sjá um sameiginlega hagsmuni deildanna og samskipti út á við og hafa yfirumsjón með framkvæmd þessara samþykkta. Stjórnir húsdeilda skulu sjá um daglegan rekstur hverrar deildar og þá hagsmuni sem sérstaklega snúa að hverri deild.
 
5. gr.
Stjórn húsfélags á félagssvæði Sörla samanstendur af fimm mönnum og fimm mönnum til vara. Hver húsdeild tilnefnir einn aðalmann og einn varamann í stjórn félagsins. Skal formaður kosinn sérstaklega úr hópi aðalmanna, á aðalfundi en að öðru leyti skiptir stjórnin sjálf með sér verkum. Fjölgi húsdeildum fjölgar að sama skapi stjórnarmönnum.

6. gr.
Þær húsdeildir sem eru með fleiri en sex eignarhluti kjósa á aðalfundi 3ja manna stjórn og skal formaður kosinn sérstaklega. Formaður í húsdeild skal jafnframt vera aðalmaður í Húsfélagi á félagssvæði Sörla í Hlíðarþúfum. Að öðru leyti skipti stjórnin með sér verkum og velur varamann í stjórn húsfélags.

7. gr.
Aðalfund í húsfélaginu skal haldinn árlega fyrir lok apríl mánaðar. Aðalfund í húsdeildum skal ennfremur halda árlega fyrir aðalfund húsfélags. Varðandi húsfélög, fundi, stjórn, atkvæði og annað í því sambandi vísast til laga um fjöleignarhús.

8. gr.
Hver húsdeild sem samanstendur af fleiri en sex eignarhlutum skal hafa með sér hússjóð. Tekjur í hússjóðinn komi frá hlutaðeigandi eigendum. Þá skal húsfélagið einni hafa með sér hússjóð. Tekjur í hússjóð húsfélagsins koma frá hverri húsdeild samkvæmt ákvörðun aðalfundarins.
Að öðru leyti fer um meðferð hússjóða samkvæmt lögum um fjöleignarhús.

9. gr.
Bannað er að gefa hrossum út í sameiginleg gerði. 
Ef hestum er kembt úti í gerði skulu hirðar sjá til að ekki liggi eftir hárflyksur.
Sérstök aðgæsla skal höfð gagnvart graðhestum sem eru á svæðinu. Gæslumönnum þeirra ber að sýna öðrum hesteigendum sérstaka tillitsemi varðandi meðferð graðhests. Óheimilt er að hleypa graðhestum út í sameiginlegt gerði ef aðrir hestar eru þar fyrir og hirðir skal hafa samfellt eftirlit með graðhesti. Vilji aðrir húseigendur hleypa hestum sínum út í sameiginlegt gerði en graðhestur er þar fyrir skal graðhesturinn víkja og tekinn í hús.

10. gr.
Litir húsa og gerða í hverfinu skulu vera samræmdir og samþykktir af bæjaryfirvöldum.

11. gr.
Bílum skal lagt á þar til gerð bílastæði. Bannað er að leggja bílum við gafla húsa eða þar sem hætta stafar af fyrir reiðmann.

12. gr.
Stjórn félagsins er heimilt að ákveða afmarkað geymslusvæði á félagssvæðinu fyrir heyrúllur og heybagga. Hverjum hesthúsaeiganda er heimilt að geyma að hámarki 10 rúllur á hinu afmarkaða geymslusvæði. Stjórn félagsins getur ef sérstaklega stendur á gefið tímabundna undanþágu frá ofangreindri tölu.

13. gr.
Um umgengni og þrifnað utanhúss gilda ákvæði reglna, sem í gildi eru eða kunna að vera settar.

14. gr.
Að öðru leyti gilda lög nr. 26/1994 um fjöleignarhús og reglugerðir, sem um húsfélög verða sett eftir því sem við á.

16. gr.
Húsfélagssamþykktir þessar og reglur öðlast gildi er þær hafa verið samþykktar af Húsfélagi á félagssvæði Sörla og að fengnu samþykki bæjarráðs Hafnarfjarðar í samræmi við ákvæði í lóðarleigusamningum.
Húsfélagssamþykktum og reglum skal þinglýst skv. 75, gr. laga um fjöleignarhús.
Samþykkt á húsfélagsfundi,
Hafnarfirði, janúar 2000.

Með kveðju frá stjórn húsfélagsins við Hlíðarþúfur

Sörli Hestamannafélag, Íþrótt, Lífstíll