Birtingardagsetning: 
miðvikudaginn, 22. maí 2019 - 18:15

Eins og flestir hafa séð hafa farið fram miklar framkvæmdir að undanförnu. Þar má helst telja spegla í reiðhöll, nýja möl í gerðum, útvarpssendi, nýtt hljóðkerfi, flutning á dómpalli og viðgerðir á vallarsvæðinu okkar. Þessar framkvæmdir hafa kostað okkur mikla vinnu og töluverða peninga. Frábærir Sörlafélagar hafa lagt hönd á plóg með því að gefa vinnu sína þó við viljum alltaf sjá miklu fleiri.

Félagsstarfsemi eins og okkar byggir starfsemi sína og uppbyggingu á framlagi félagsmanna og annara. Kynbótanefnd Sörla veitti framlag til framkvæmdanna við brautina en hún styrkti þær framkvæmdir um 1.000.000 kr. með söfnunarfé sínu. Glerborg gaf Sörla speglana í höllina og Byko gaf okkur að auki krossviðinn til að hengja speglana upp. Mölin í gerðin þ.e.a.s. hvíta stóra gerðið við höllina og hringgerðið var greitt úr okkar sameiginlegu sjóðum. Útvarpssendinn og Ipad-a, sem þörfnuðust endurnýjunar, greiddi mótanefnd úr sínum söfnunarsjóði. Sörlafélagar gáfu okkur vagn og efni til að geta flutt dómpallinn á milli svæða, Bílaraf gaf okkur fætur undir hann og Málning gaf okkur málningu til að mála dómpallinn og staurana á vellinum. Að auki voru það ómetanlegir og dyggir Sörlafélagar sem gáfu vinnuframlag við að græja og gera svo allt þetta og fleira til yrði að veruleika.

Fyrrnefndir félagar og aðrir sem komið hafa að öllu starfi á félagssvæði Sörla eru að gera samfélagið okkar svo miklu betra og um leið fallegra og skemmtilegra.  Viðhald, uppbygging og félagsandi er nauðsynlegur félagsstarfi eins og okkar en til allra verkefna þarf einnig fjármagn. Happdrætti Sörla var t.a.m. ný fjáröflun sem Sörlafélagar bæði gáfu vinninga í og voru duglegir að selja og kaupa miða.

Einhverjir eiga enn eftir að greiða félagsgjöld sín til Sörla og viljum við því ítreka við allt það góða fólk sem ekki hefur greitt að gera það hið fyrsta. Okkur langar að þakka öllum þeim sem veitt hafa okkur stuðning og þakka frábæru sjálfboðaliðunum okkar fyrir allt sitt vinnuframlag til bættrar aðstöðu og félagsstarfs bæði í vetur og nú í vor. Höldum áfram að gera gott samfélag Sörlafólks  betra. Framundan eru skemmtilegir tímar, bæði í náinni og fjarlægri framtíð.

Bestu kveðjur, Didda

 

Sörli Hestamannafélag, Íþrótt, Lífstíll