SÍÐASTI SJÁLFBOÐALIÐINN ER EKKI DAUÐUR
Fregnir af dauða síðasta sjálfboðaliðans í félagsstarfi eru stórlega ýktar. Í tilvik Hestamannafélagsins Sörla eru þær raunar mjög langt frá hinu sanna. Byrjunin á vetrarstarfinu hefur verið alveg hreint mögnuð. Það þarf ekki annað en að fylgjast með heimasíðu félagsins til að sjá að það er alltaf eitthvað skemmtilegt að gerast. Einn Sörlafélagi sagði reyndar við mig um daginn að það væri allt of mikið að gerast, honum langaði á allt og væri kominn með valkvíða. Um leið og ég óska þessum ágæta félaga góðs bata þá gleðjumst við yfir blómlegu félagsstarfi.
NEFNDIRNAR OKKAR
Allar nefndir félagsins byrja með miklum krafti og metnaði. Gaman er að sjá nýja kvennadeild félagsins koma inn með nýjungar og skemmtilega viðburði. Undirbúningur undir sýninguna „Æskan og hesturinn“ er í fullum gangi á fimmtudögum og sunnudögum og sér Freyja um að halda öllum við efnið. Allir þessir tugir nefndarmanna eru sjálfboðaliðar. Þau starfa í nefndum félagsins af áhuga og til að veita okkur öllum þá fjölbreyttu dagskrá sem Sörli státar af. Félagsstarfið er borið uppi af nefndafólki og ykkur með því að taka þátt. Þökkum því, skömmum ekki heldur hjálpum til við að bæta gott og gera enn betra. Ég held að þessi stefna sé að skila okkur vel áfram í góðum félagsanda.
STEBBUKAFFI
Eitthvað held ég að Snorra okkar hafi verið farið að langa í beikon og egg og amerískar pönnukökur, því Stebba hefur gengið í endurnýjun lífdaga í Stebbukaffinu. Ásamt öllu þessu góða sem við þekkjum bíður hún nú upp á allskonar kræsingar á laugardögum á morgnana og framyfir hádegið. Ég skora á allt Sörlafólk að líta við í Stebbu kaffi á laugardögum, hitta hina „hestavitleysingana“ taka fjölskylduna með og vinina og afa og ömmu. Þarna er skemmtilegur vettvangur til að efla félagsandann, fá sér í gogginn og spá í menn og málefni. Svo kemur Smári Adólfs alltaf við þarna og hver vill ekki hitta mann sem á alltaf „akkúrat“ hestinn sem maður leitar að.
FÉLAGSHESTHÚSIÐ OG REIÐNÁMSKEIÐ FYRIR BÖRN
Sörla tókst að tryggja sér félagshesthús til leigu í eitt ár. Stjórnin auglýsti eftr börnum og ungmennum í félagshúsið og eftir hestum frá Sölamönnum. Í fæstum orðum er óhætt að segja að þetta starf byrjar framar vonum. Hestar og börn, bæði með sína eigin hesta eða með hesta sem félagsmenn lána eru nú þarna flesta daga að kynnast ævintýrinu um íslenska hestinn og fræðast. Við vorum svo heppin að fá þær Auði og Guðbjörgu til að annast um húsið og halda utan um starfið með krökkunum. Ég held við höfum fundið hér eitthvað mjög gott sem framhald verður á.
Á laugardaginn byrjar svo námskeið fyrir börn og unglinga skipt eftir kunnáttu. 34 börn eru skráð á námskeiðið, bæði börn úr félagshúsinu og einnig börn félagsmanna. Allt sýnir þetta að það er eftirspurn eftir námskeiðum og stuðningi við börn og nýliða og vill stjórn félagsins leggja metnað í það starf.
FÉLAGSGJÖLDIN
Nú eru komin inn í heimabanka kröfur vegna félagsgjalda. Átak verður gert í því núna að hreinsa félagatalið og eru þeir sem telja að þeir hafi ranglega fengið greiðsluseðil vinsamlegast beðnir um að senda póst á sorli@sorli.is með nánari upplýsingum. Áður en einhverjum dettur í hug að greiða ekki félagsgjöldin er ágætt að velta eftirfarandi fyrir sér: Notar þú reiðvegina á félagssvæðinu, sem reiðveganefnd hefur safnað í fé til láta byggja í samvinnu við bæjaryfirvöld? Ríður þú út á upplýstum reiðvegi sem mikil vinna hefur farið í að láta lýsa og halda upplýstum? Hefur þér fundist gott að láta skafa snjó af reiðvegunum, sem Stjáni okkar gerir á kvöldin og um helgar? Æfir þú þig á vellinum eða skeiðbrautinni? Sækir þú viðburði á vegum Sörla? Notar þú reiðhöllina,,, (ok, já ég veit hún er alltaf upptekin), en samt ekki alltaf. Nýtir þú aðra aðstöðu á félagssvæðinu? Svona mætti halda áfram. Ef svarið er já, þá er bara eitt eftir að gera. Borga félagsgjöldin og vera stoltur, skuldlaus Sörlafélagi.
ERTU SKRÁÐUR SÖRLAFÉLAGI
Að lokum þá langar mig að nefna við ykkur kæru félagar að á síðustu tveimur mánuðum hafa bæst við tæplega 90 nýjir félagar í Sörla. Það er auðvitað frábært í félagi sem telur um 900 manns. Við getum samt gert enn betur. Við viljum fá alla sem nota svæðið okkar til að skrá sig í félagið. Markmið stjórnarinnar er að fólk vilji skrá sig, að það sjái öflugt samheldið félag sem það vill vera í. Það er Sörla sérstaklega mikilvægt að öll börn og ungmenni séu skráð í félagið því á því byggist okkar styrkur frá Hafnarfjarðarbæ og Rio Tinto. En auðvitað á enginn sem ríður út á félagssvæðinu að vera þekktur fyrir það að láta aðra borga fyrir sig, er það. Ég þekkti einu sinni mann sem gleymdi alltaf veskinu heima. Á endanum var honum ekki boðið með í fjörið.
FRAMHALDSAÐALFUNDUR – STOFNUN BYGGINGARSJÓÐS – SAMNINGAR VIÐ HAFNARFJARÐARBÆ
Framhaldsaðalfundur Sörla verður haldinn þann 19. mars. Á aðalfundinum síðasta voru samþykktar lagabreytingar sem samþykkja þarf á framhaldsaðalfundi til að þær öðlist gildi. Á framhaldsaðalfundi verða bornar upp mjög mikilvægar tillögur til samþykktar frá stjórn félagsins. Í fyrsta lagi þá leitar stjórn eftir samþykki félagsmanna fyrir því að ganga til samninga við Hafnarfjarðarbæ um byggingu reiðhallar. Einnig leitum við eftir heimild til lántöku vegna byggingarinnar. Einngi óskar stjórnin eftir heimild félagsmanna til að stofna sérstakan byggingarsjóð. Hugmynd stjórnarinnar er að leggja 10 milljónir króna í sjóðinn og leita síðan eftir frjálsum framlögum fyrirtækja og fólks í sjóðinn. Of langt mál væri að fara í nákvæmar útskýringar hér á þessum atriðum, en skorað er á alla félagsmenn að mæta á framhaldsaðalfundinn og taka þátt í mikilvægum ákvarðanatökum fyrir félagið sitt.
DIDDA OKKAR
Það er ekki hægt að skrifa svona pistil fyrir félagið án þess að hrósa nýja framkvæmdastjóranum okkar. Didda hefur sett sig inn í verkefnin fljótt og vel á afar annasömum tíma og leysir alla hluti af röggsemi. Takk Didda.
Og takk kæra nefndarfólkf fyrir ykkar vinnu.
Munum að sinna umburðarlyndi og samvinnu í samskiptum okkar við alla félagsmenn og sérstaklega við eina starfsmann Sörla. Sörli er lítið samfélag og við viljum hafa það gott samfélag.
Sörlakveðja
Atli