Birtingardagsetning: 
föstudaginn, 20. september 2019 - 17:33
Frá: 

Ég átti einu sinni sem oftar leið um Skagafjörð og kom við á bæ einum sem lúrir sakleysislega milli tveggja þekktra hrossaræktarbúa. Mér hafði borist til eyrna að bóndinn lumaði á heilum árgangi af tryppum undan þá nýorðunum heimsmeistara í kynbótabómi, Tígli frá Gýgjarhóli. Þetta reyndist rétt vera, bóndinn hafði fengið Tígul í stóðið sitt tveggja vetra gamlan.  

Gamli bóndinn var þarna nýorðinn ekkill og syrgði konu sína. Þegar hún andaðist hafði hann aldrei svo mikið sem soðið sér kartöflur. Eftir setu í eldhúsinu á bænum og sögu um það hvernig hægt er að borða eitt saltað þriggja vetra tryppi á vetri, í bland við soðinn silung og kartöflur, féllst gamli maðurinn á að rölti með mér niður að Héraðsvötnum til að líta á stóðið. Við spáðum tryppin, ætterni og landslagið. Á bakaleiðinni þegar kaup höfðu verið handsöluð á fallegu tryppi úr stóðinu spurði ég bóndann hvort hann riði mikið út. Hann snéri sér að mér og sagði rólega „Nei vinur. Ég hef aldrei verið fyrir það að ríða erindisleysu“.

Nú er sá tími ársins að fjölmargir hestamenn fara á fjöll og ríða ekki erindisleysu. Nú skal ríða fyrir fé. Smalað er á knáum þolhestum, ullarnoðrunum feitum, sem koma þarf til byggða. Eitthvað þarf að fara á Weberinn næsta sumar. En aðrir ríða litla- og stóra skógarhringinn í erindisleysu í hestamannahverfi Sörla.   

Tamningatryppi eru mörg hver komin á hús og gæðingar morgundagsins farnir að stíga sín fyrstu spor á járnum. Lyftir hann löppum, er töltið laust, er brokkið stinnt. Ég heyrði í einum Sörlafélaga í vikunni. Sá var bjartsýnn, tveir graðhestar á húsi, tvær hryssur líka. „Já Atli, ég spái vel fyrir þessum tryppum“, sagði hann.  Hestamenn eru almennt bjartsýnir og næsta tryppi ber með sér vonina um gæðinginn eina sem allir leita að.

Þó skammdegið nálgist okkur hægt og bítandi, öruggt með sínar mínútur á hverjum degi, þá er harla bjart framundan hjá Sörlafélögum. Fyrir suma er skemmtilegasti tími ársins framundan og þá á ég ekki við jólin. Við tekur tíminn með hestunum okkar og öðrum tvífættum vinum í hesthúsunum. Félagsstarfið líka.

SUMARSTARFIÐ

Í sumar var Sörli í samstarfi við tvo reiðskóla, annars vegar Íshesta og síðan vorum við í samstarfi við Karen Woodrow og reiðskólann hennar á Álftanesi. Reiðskóli Íshesta er alltaf vinsæll og nýtt samstarf kom afar vel út og hefur skilað okkur nýjum Sörlafélögum og krökkum í félagshesthúsið okkar. Sörli hefur með þessu líka bætt framboð til barna og ungmenna á þessum vinsælu námskeiðum. Hefur stjórnin ákveðið að halda þessu samstarfi áfram næsta sumar og bæta frekar í.

Sörlafólk hefur sést víða í keppnum sumarsins og við getum ekki annað en verið stolt af sýnileika okkar fólks.

Mótanefnd hélt einnig glæsileg mót í vor og nú á haustdögum og mikil aukning var í skráningu á opna gæðingaveislu Sörla og Furuflísar.

VIÐRUNAR OG BEITARHÓLF

Það eru skemmtilegar fréttir að segja frá því að Sörli hefur fengið til afnota stórt svæði við Hlíðarþúfur sem nær langleiðina að nýja reiðveginum yfir Bleiksteinsháls. Þegar þetta svæði verður komið í full not mun það nýtast bæði efri byggðinni og Hlíðarþúfum vel fyrir viðrunar/eða beitarhólf. Það á eftir að koma í ljós hvernig við nýtum þetta sem best, en ljóst að nýja svæðið mun gera hverfið okkar enn betra og skemmtilegra og opna betri möguleika fyrir efri byggðina, að fá hólf fyrir hesta sína.

FÉLAGSHESTHÚS

Í ár verður aftur starfrækt félagshesthús. Sörli auglýsti laus pláss á sama grunni og í fyrra fyrir börn og unglinga í félagshúsi Sörla strax í haust. Aðsóknin er frábær. Síðast þegar ég hitti þær stöllur Auði og Guðbjörgu voru 23 björn skráð. Húsið orðið fullt og krakkar komnir á bak í hverfinu. Sörli áformar að reka félagshús frá september til maí loka ef allt gengur að óskum. Það er frábært starf sem unnið er þarna með börnunum. Eftir því er tekið annarsstaðar og það er gaman fyrir stjórnina að fá hrós frá stjórn L.H fyrir leiðandi starf í nýliðun og barna- og unglingastarfi. Mest hrós eiga þó umsjónarmenn hússins að fá, þeirra starf er hugsjónastarf og óeigingjarnt.

UPPSKERUHÁTIÐ Í STAÐ NEFNDAGRILLS

Stjórn hefur ákveðið að í stað hefðbundins nefndagrills verði haldin uppskeruhátíð/árshátið félagsins fyrir áramót. Verðlaunaafhendingar sem verið hafa á aðalfundi munu færast á þann viðburð. Einnig var ákveðið að halda sérstaka uppskeruhátið fyrir börnin, sama dag eða daginn áður. Verið er að vinna að því að finna sal og festa dagsetningu á viðburðinn.

AÐALFUNDUR

Aðalfundur Hestamannafélagsins Sörla verður haldinn að Sörlastöðum 8. október kl. 20:00. Vegna óviðráðanlegra orsaka náðist ekki að halda hann í september eins og fyrirhugað var. Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa er á fundinum kosið í allar lögbundnar nefndir og ráð á vegum félagsins. Helmingur stjórnarmanna er kjörinn og formaður er kosinn sérstaklega.

Ég hvet sem flesta til að mæta á aðalfundinn og kynna sér starfið, gefa kost á sér og sýna með því hve öflugt félag Sörli er. „Heimastjórnin“ skilar engu, ef þú vilt hafa áhrif og ert með góðar hugmyndir, gefðu kost á þér. Svo einfalt er það nú.

Stjórn félagsins sem skipuð er sjö einstaklingum, er í dag þannig skipuð:

Stefnir Guðmundsson, varaformaður, Kristín Þorgeirsdóttir, gjaldkeri, Valka Jónsdóttir, ritari, Thelma Víglundsdótir, Eggert Hjartarsson og Ásta Kara Sveinsdóttir ásamt undirrituðum formanni. Stjórn skiptir með sér verkum. Stjórn ræddi það á fundi sínum í september að það færi betur á því að fyrir aðalfund lægi fyrir hvaða stjórnarmenn gæfu kost á sér aftur.

Eggert Hjartarson, Valka Jónsdóttir og Kristín Þorgeirsdóttir hafa setið í tvö ár í stjórn. Fyrir liggur að Valka Jónsdóttir gefur ekki kost á sér aftur, en Kristín Þorgeirsdóttir gefur kost á sér til endurkjörs.

Thelma Víglundsdóttir hefur einnig tilkynnt að hún óskar eftir því að láta af störfum vegna anna á öðrum vettvangi.

Stefnir Guðmundsson og Ásta Kara eru síðan að byrja sitt síðara tímabil í stjórn.

Ég mun bjóða mig fram aftur til formanns félagsins.

Þeim sem ganga úr stjórn vil ég þakka frábært samstarf og góða vinnu fyrir félagið.

FRAMBOÐ TIL STÓRNAR, FORMANNS OG NEFNDA:

Stjórnin samþykkti á fundi sínum í september að bjóða þeim sem vilja, að senda stutta kynningu á sér og þeirra helstu áhersluatriðum til birtingar á vef félagsins fyrir aðalfundinn. Við óskum eftir stuttum texta, mynd og kynningu og til hvaða starfa viðkomandi hyggst bjóða sig fram í. Það er hverjum og einum frjálst að senda inn kynningu og enn er fólki frjálst að mæta á aðalfund og bjóða sig fram þar. Erindin skal senda á sorli@sorli.is

Að lokum vil ég hvetja alla til að mæta á aðalfund félagsins þann 8. október n.k. Og fyrir lagaleiða þá skal tekið fram að ekki er líklegt að mikið verði fjallað um lagabreytingar á þessum fundi, sælla minninga.

Munum að huga að haustbeitinni og útigangnum og umfram flest,,, ríðum erindisleysu.

Sörlakveðja

Atli

Sörli Hestamannafélag, Íþrótt, Lífstíll