Sumarferð Sörla var að þessu sinni á Njáluslóðum. Ferðin hófst föstudaginn 12. júní á bænum Hemlu rétt austan við Hvolsvöll, Þangað var búið að ferja klárana deginum á undan og voru það alls um 120 hross. Í hnakk voru 41 knapi auk hinna góðu trússara Dagbjartar, Höllu og Pétrúnar, sem stukku á bak ef færi gafst. Fyrsta daginn var riðið frá Hemlu á milli fjallanna Þríhyrnings og Vatnsdalsfjalls. Áð var í Fljótshlíðarrétt svo á eyðibýlinu Reynifelli og endað í Fossi þar sem gist var í alls 5 nætur í 2 fjallakskálum. Næstu tvo daga var svo riðið útfrá Fossi og að sjálfsögðu var reksturinn hafður með, um 80 laus hross. Meðal annars var riðið inn að Hafrafelli og inn í Lambadal. Á laugardagskvöldinu fengum við heimamanninn Ingvar Guðbjörnsson til að fara með okkur einhesta um næsta nágrenni við Foss. Var það fróðlegur og skemmtilegur túr í fallegu veðri. Sunnudagskvöldið 14. júní kom Ársæll á rútunni og fór með okkur í Sögusetrið á Hvolsvelli þar sem Sigurður forstöðumaður safnsins skemmti okkur með sögum úr Njálu. Síðasta daginn var svo riðið frá Fossi og stefnan tekin vestur fyrir Vatnsdalsfjall og var meðal annars áð á Árgilsstöum hjá Sörlafélaganum Adda - Arngrimur Svavarsson. Ferðin endaði mánudaginn 15. júní hjá Guðmundi bónda í Lynghaga. Ferðin gekk í það heila mjög vel en þó fengu einhver hross að finna fullmikið fyrir löppum sumra klára. 2-3 knapar fundu fyrir nuddsárum en þá kom hún Didda Stína Sigríður Kristín Hafþórsdóttirmeð græðandi krem og plástra og bjargaði málunum. Reiðleiðirnar voru frábærar, meira og minna allt mjúkar moldargötur sem eru uppáhald hesta og hestamanna. Það rigndi hressilega á okkur fyrsta daginn en hina dagana var bjart og þurrt og á mánudeginum 15. júní var vel heitt. Það vita þau sem það hafa upplifað að fátt er eins gaman og að vera í úti í náttúrunni á góðum hesti og horfa á laus hross hlaupa frjáls í langri lest. Ferðanefnd Sörla þakkar öllum fyrir góða og skemmtilega ferð.

Birtingardagsetning: 
föstudaginn, 19. júní 2015 - 0:17