Birtingardagsetning: 
miðvikudaginn, 10. júní 2020 - 13:39
Frá: 

 

Sörli hélt gæðingamót félagsins dagana 5.-6. júní 2020

Gæðingamótið fór vel fram. Starfsmenn mótsins voru helst til fáir en fúsir félagsmenn hlupu í skörðin þegar á þurfti að halda. Tímasetningar stóðust að mestu enda var stundvísi keppenda til fyrirmyndar. Æskuflokkar félagsins voru fjölmennir og sterkir. Ánægjulegt var að sjá að félagshesthúsið er að skila nýjum iðkendum inn í hestaíþróttir. Allir keppendur í æskuflokkum áttu kost á að taka þátt í úrslitum. Það var mikilvæg reynsla fyrir byrjendur og tækifæri fyrir lengra komna til að sýna reiðmennskuhæfileika sína.

Sigurður Ævarsson gagnrýnir mótið í innleggi á fésbókarsíðu Sörla.  Rétt er að svara því að nokkru. Gagnrýni Sigurðar snýr að ákvörðun mótanefndar um að fækka úrslitahestum í fullorðinsflokkum úr átta í fimm. Segir hann þetta hafa varpað skugga leiðinda og neikvæðni á annars gott mót. Við skipulagningu mótsins tók mótanefnd ákvörðun um þetta að ígrunduðu máli.  Helstu rök í þessu efni voru:

  • betri hestar kæmu til úrslita;
  • betri dómgæsla er athygli dómara beindist að 5 hestum í stað 8;
  • kröfur til keppenda yrðu meiri og keppni um verðlaunasæti harðari.

Metnaður fyrir auknum gæðum réð því að hafa færri hesta í úrslitum. Vissulega hefði mátt kynna mótsfyrirkomulag betur og jafnvel bæta við B-úrslitum í einhverjum greinum. Að láta sem um stórkostlega og neikvæða breytingu hafi verið að ræða, er djúpt í árinni tekið.

Þetta fyrirkomulag olli einhverjum keppendum vonbrigðum sem flestir létu kurteislega í ljós. Framkvæmdanefnd mótsins fundaði um málið og ákvað að standa við fyrri ákvörðun sína.

Einn keppandi virtist ekki sætta sig við þessa ákvörðun og fann síg ítrekað knúinn til að finna að við starfsfólk, stundum með frekju og dónaskap.  Slík framkoma er ólíðandi og ekki boðleg gagnvart fólki í sjálfboðavinnu við mótahald.  

Gæðingamót Sörla tókst vel. Aðstæður voru til fyrirmyndar og veðrið lék við Sörlafólk þessa daga. Eini skuggi leiðinda og neikvæðni er sú framkoma sem lýst er hér að framan. Sjálfsagt er að setja fram gagnrýni og taka henni. Keppendur verða þó á stundum að sætta sig við að hlutum verður ekki hagað að vilja þeirra. Sýna skal starfsfólki kurteisi og virða ákvarðani framkvæmdaðila móts þótt þær falli ekki að geði eða skoðunum allra.

Hvers kyns umræða er af hinu góða og gerir félagið öflugra í starfi sínu. Gagnrýni þarf hins vegar að setja fram á málefnalegan hátt. Breytingar á hefðbundnu fyrirkomulagi geta verið til góðs og leitt til framfara. Komum fram af virðingu við starfsfólk móta og sýnum íþróttamannslega framkomu, innan vallar sem utan.

Sörlafélögum, keppendum, dómurum og starfsfólki þökkum við fyrir gott mót.

Inga Kristín Sigurgeirsdóttir, formaður mótanefndar Sörla
Darri Gunnarsson, mótsstjóri Gæðingamóts Sörla 2020