Birtingardagsetning: 
mánudaginn, 6. janúar 2020 - 15:31

Það hefur vart farið fram hjá neinum félagsmanni Hestamannafélagsins Sörla að með aukinni ásókn í útivist og hreyfingu landans hefur umferð gangandi, hjólandi og akandi umferð stórlega aukist á félagsvæði Sörla.

Stjórn og framkvæmdastjóri eru búin að eiga í viðræðum við bæinn út af þessari þróun. Við óskuðum eftir því að með tilkomu nýja göngustígsins fyrir neðan Hlíðarþúfur yrði göngustígurinn í Gráhelluhrauni aflagður með öllu og öll gangandi umferð yrði leidd inn á nýja stíginn. Rökin fyrir þessari lokun eru þau helst að með tilkomu nýja stígsins þá hafi aðstæður gangandi og hjólandi batnað til muna og allt aðgegni að upplandi Hafnarfjarðar sé miklu betra. Stjórn og framkvæmdastjóri bentu auk þess á að þessir tveir hraunhringir, sem Hafnarfjarðarbær útbjó fyrir okkur hestamenn í Hafnarfirði og eru jafnframt einu upplýstu reiðvegir okkar, eru í raun okkar æfingasvæði og þar óskum við eftir að fá að vera í friði fyrir öllu utanaðkomandi áreiti s.s umferð gangandi, hjólandi og hlaupandi fólks. Á þessum hringjum (aðal æfingasvæðinu okkar) viljum við getað farið um örugg með óvant fólk og lítið tamin hross.

Þegar byrjað var á brúarframkvæmdunum fyrir neðan Hlíðarþúfur þá kærði stjórn Sörla framkvæmdina. Skipulagsyfirvöld synjuðu ósk félagsins um að hætt yrði við framkvæmdina með þeim rökum að göngustígurinn væri á aðalskipulagi bæjarins. Kærunefnd umhverfis- og auðlindamála er þó enn með málið til skoðunar. Núna er félagið að vinna að því að fara fram á breytingu á skipulaginu. Við verðum því að vona að það hljóti góðan hljómgrunn því að með þessu erum við einungis að reyna að tryggja öryggi félagsmanna okkar á okkar æfingasvæði. Það skal tekið fram að með fyrrnefndum aðgerðum fengum við stefnu brúarinnar breytt en í upphafi var stefna hennar beint inn á reiðveginn en ekki á göngustíginn.

Nú á haustdögum þá komu tveir fulltrúar frá tryggingafélaginu okkar og tóku út svæðið þ.e.a.s. reiðvegi, hesthúsahverfin og reiðhöllina. Fulltrúar úr reiðveganefnd og framkvæmdastjóra stóðu að þessari úttekt og fylgdu þeim um svæðið. Niðurstöður þessarar úttektar kom okkur ekki á óvart. Einu athugasemdirnar sem voru gerðar voru þær að reiðvegir eru mjög illa merktir og að ökuhraðinn á milli hverfanna og í hesthúsahverfunum sjálfum væri alltof mikill. Reiðveganefnd er búinn að funda með bænum og kalla eftir því að hámarkshraðinn á milli hverfanna verði lækkaður í 30 km hraða og að það verði gerðar úrbætur á merkingum reiðvega. Einnig var óskað eftir að það yrði gert stórt skilti, fyrir neðan Hlíðarþúfur, þar sem ökumönnum sé bent á það að þeir séu að aka inn á athafnasvæði Hestamannafélagsins Sörla. Hvetjum við alla félagsmenn til að aka varlega og á lágum hraða í hverfunum.

Í haust óskaði Reiðveganefnd eftir auknu viðhaldsfé frá Hafnarfjarðarbæ til að byggja upp og laga veginn á milli hverfanna því hann er orðinn stórhættulegur og liggur undir skemmdum. Það sama á við um báða hraunhringina því allur ofaníburður er farinn og grjótnibbur standa alls staðar upp úr. Félagið fékk ekkert aukið viðhaldsfé á fjárlögum bæjarins fyrir árið 2020 en það er alveg ljóst að ef ekkert verður að gert í nánustu framtíð  þá eyðileggjast þessi mannvirki. Reiðveganefnd, formaður, fulltrúi úr stjórn og framkvæmdastjóri funduðu með fulltrúa bæjarins og óskuðu eftir því að hann gerði heildarkostnaðargreiningu á því hver eðlilegur viðhaldskostnaður væri á ári á hraunhringjunum okkar. Við bentum á að það viðhaldsfé sem bærinn leggur til í viðhald á ári hverju á þessum mannvirkjum (kr. 500.000) dugar skammt og er langt frá því að vera fyrir eðlilegu viðhaldi. Þegar niðurstöður verða komnar úr kostnaðargreiningunni þá verður haldið áfram að óska eftir auknu viðhaldsfé

Nú þegar fjölga fer á félagsvæðinu okkar er rétt að árétta og ítreka nauðsyn þess að við reiðmenn séum sýnileg í myrkrinu. Mjög gott væri að við félagsmenn temjum okkur að vera í gulum endurskinsvestum því þá sjáumst við svo miklu betur. Mig langar að minna á að einnig er hægt að nálgast vestin sem voru framleidd fyrir okkur í samvinnu við Sjóvá sem stendur á AÐGÁT hér á Sörlastöðum. Þetta eru vesti fyrir þá sem vilja láta taka tillit til sín af einhverri ástæðu, viðkomandi er jafnvel á lítið tömdum hestum, getur sjálfur verið óöruggur eða hvað sem er.

Minni einnig á netfangið ohapp@sorli.is en á það netfang viljum við fá allar tilkynningar ef ÓHAPP eða næstum því óhapp verður á svæðinu okkar. Við trúum því að koma megi í veg fyrir einhver óhöpp eða slys ef að við skráum allt hjá okkur og sjáum að þau eru að gerast ítrekað á sama staðnum. Ef enginn tilkynnir hættur eða við horfum alltaf fram hjá þeim getum við ekki gert útbætur á viðkomandi svæði. Á heimasíðu félagsins er borði sem hægt er að ýta á og senda póst beint á netfangið.

Bestu kveðjur,

Didda

Sörli Hestamannafélag, Íþrótt, Lífstíll