FUNDARGERÐ
 

Setning fundar

Formaður Sörla, Atli Már Ingólfsson bauð félagsmenn velkomna á aðalfund Sörla og setti fundinn. Alls mættu um 60 félagsmenn á fundinn.

Kosning fundarstjóra og fundarritara

Darri Gunnarsson var kosinn fundarstjóri og Valka Jónsdóttir fundarritari - einróma samþykkt.

Boðun fundar

Fundarstjóri fór yfir boðun fundar og upplýsti að hann væri í samræmi við reglur félagsins. Engar athugasemdir voru gerðar við boðun fundarins.

Félagatal

Fundarstjóri, Darri Gunnarsson segir frá því að félagar væru 860 og hefur þeim fjölgað frá því í fyrra en í fyrra voru þeir 788.

Skýrsla stjórnar

Atli Már Ingólfsson formaður las og kynnti skýrslu stjórnar.

Skýrsla stjórnar hestamannafélagsins Sörla

Fyrir starfsárið 2018 - 2019

Kæru Sörlafélagar.

Frá síðasta aðalfundi sem haldinn var þann 30. október 2018 hefur stjórn félagsins haldið 10 reglulega stjórnarfundi, auk annarra óformlegra funda. 

Í þessari skýrslu mun ég f.h. stjórnar Sörla 2018-2019 stikla á stóru og fari yfir helstu störf stjórnarinnar á árinu, fara yfir þá viðburði sem haldnir voru og voru á borði stjórnar og nefna helstu framkvæmdir og tækjakaup sem ráðist var í.  Um þá fjölmörgu viðburði sem haldnir hafa verið á vegum nefnda félagsins vísast til starfsskýrslna viðkomandi nefnda.

 

FRAMKVÆMDIR Á VEGUM STJÓRNAR:

Skeiðbrautin – kynbótabrautin.

Stjórn félagsins ákvað að halda áfram í framkvæmdum á árinu á keppnissvæðinu og núna að vinna í beinu brautinni. Skipt var um girðingu meðfram brautinni og hún þrengd og merkt upp á nýtt. Framkvæmdir miðuðu að því að brautin væri ákjósanleg til skeiðreiðar og einnig til að laða að kynbótasýningar. Fjölmargir sjálfboðaliðar komu að þessu verki. Rétt er einnig að geta þess að kynbótanefnd félagsins styrkti verkefnið með rausnarlegu framlagi af því fé sem nefndin hefur safnað með starfi sínu.

 

Kynbótasýning í Sörla.

Sörli fékk á árinu 2019 sína fyrstu kynbótasýningu í nokkurn tíma og þótti mörgum of langt hlé hafa verið á þessum sýningum sem ávallt skapa skemmtilega stemmningu á félagssvæðinu. Það var álit þeirra sem sýndu hross á sýningunni og starfsmanna RML og Bændasamtakanna að aðstaðan væri til fyrirmyndar og brautin einstaklega góð. Gerir stjórnins sér vonir um að Sörli fái góðan sýningartíma næsta vor fyrir landsmót.

Endurbættur dómpallur fyrir kynbótasýningar.

Dómpallurinn sem notaður hefur verið fyrir kynbótasýningar og á mótum var endurnýjaður, málaður og hann settur á færanlegan vagn. Reyndist hann vel á kynbótasýningunni.

Gerðin við Sörlastaði

Skipta var um undirlag í hvíta gerðinu og hringgerðinu við Sörlastaði.

Reiðhallargólf

Reiðhallargólfið var allt losað upp þar sem undirlagið var orðið hart og skapaði slysahættu. Véladeild Sörla sá um að smíða sérstakt tæki til þess verks. Að þvi verki loknu var skipt um spæni í gólfinu.

Sörlastaðir

Nýtt og endurbætt hljóðkerfi var sett upp á Sörlastöðum, eftir að félaginu hafði verið gefið glæsilegt safn hátalara af bestu gerð. Mikil og góð vinna var framkvæmd í sjálfboðastarfi í því að setja upp hátalarana. Frábært framtak.

Speglar í reiðhöll

Settir voru upp speglar í reiðhöllinni, mörgum til mikillar gleði. Geta knapar nú séð sig og hesta sína í algjörlega nýju ljósi.

Skrifstofa framkvæmdastjóra

Bætt aðstaða er nú fyrir framkvæmdastjóra félagsins að Sörlastöðum, eins og gestir hafa tekið eftir. Framkvæmdastjórinn sá að mestu um framkvæmdir sjálf, en keyptar voru nýjar innréttingar eftir þörfum.

Vaskahús

Tekið var í gagnið vaskahús á Sörlastöðum þannig að góð aðstaða er fyrir þvottavél og önnur tól og tæki tengd þrifum. Enn á ný komu störf sjálfboðaliða að góðu gagni.

Fleiri viðhaldsverkefni mætti nefna á Sörlastöðum svo sem viðgerð á hurð o.fl. en hér verður látið staðar numið að þessu sinni.

TÆKJAKAUP Á VEGUM STJÓRNAR

Félagið keypti bæði ruddasláttuvél og skítadreifara á starfsárinu, með góðri hjálp frá Krísuvíkurnefnd og hinu sjálfstætt starfandi Graðhestamannafélagi hestakarla í Sörla. Tækin eru að koma að mjög góðum notum þessa dagana við að slá og dreifa skít á nýtt svæði sem félagið hefur fengið til afnota frá Hafnarfjarðarbæ.

Ný snjótönn

Sörli keypti nú á haustdögum nýja og stærri snjótönn og þyngingarklossa. Íshestar borguðu helming kostnaðar við kaupin og er gott að sjá að nýr og ferskur blær er að færast í samstarf félagsins og Sörla.

 

ÖNNUR VERKEFNI OG VIÐBURÐIR

Stóra reiðhallarmálið.

Mikil vinna hefur verið í gangi á starfsárinu vegna undirbúnings á byggingu nýrrar reiðhallar Sörla. Vinna stjórnar við að fá reiðhöll efst á forgangslista ÍBH yfir byggingu íþróttamannvirkja Í Hafnarfirði skilaði þeim árangri að næsta stóra verkefni á forgangslista bæjarins er reiðhöll Sörla.

Enn er þó unnið að undirbúningsvinnu í reiðhallarnefndinni með starfsmönnum Hafnarfjarðarbæjar. Nú er unnið að því að lækka kostnað við bygginguna og að breyta byggingarreit hússins svo ráðast megi í verkefnið á næsta ári.

Sörli kostaði og lét bora prufuholur á svæðinu til að kanna bergfestur, með það að markmiði að kanna hvort lækka mætti byggingarkostnað hússins. Tilraunaholurnar gáfu góð fyrirheit um að lækka megi byggingarkostnað þar sem traust berg reyndis undir byggingarreitnum. Með hjálp okkar góðu sjálfboðaliða er nú verið að vinna í hönnun hússins.

Vonast er eftir því að vinna starfshóps ljúki nú í októbermánuði og þá taki við vinna við að koma byggingunni á fjárlög Hafnarfjarðarbæjar fyrir árið 2020. Stjórnin getur ekki annað en verið bjartsýn á að öll þessi vinna sé að skila árangri og að senn sé þess skammt að bíða að fyrsta hrossið dilli taglinu í nýrri reiðhöll Sörla.

Viðrunarhólf.

Tímamótasamkomulag náðist við Hafnarfjarðarbæ um aukið land undir viðrunarhólf fyrir félagsmenn, sunnan og ofan við Hlíðarþúfur allt að Bleiksteinshálsi. Inntak þessa samnings er það að Sörli fær til uppræktunar svæði sem nýst getur undir viðrunarhólf fyrir bæði Hlíðarþúfur og efri byggðina þ.e. nýju hesthúsin.

Vart þarf að taka það fram að þetta eru frábærar fréttir fyrir alla Sörlafélaga sem vilja nýta sér aukna möguleika á að setja hesta sína út á vorin eða þá sem hafa hesta lengur á húsi eða keppnisfólk. Margfaldast við þetta þeir möguleikar sem við höfum hingað til haft og aðkoma að svæðinu um reiðveg við Bleiksteinsháls á að auka möguleika efri byggðar á að nýta sér viðrunarhólfin.

Sörli mun stofna sérstaka viðrunarhólfanefnd til að sjá um framkvæmdir og skipulag á svæðinu, en fyrir liggur að græða þarf svæðið upp áður en full nýting getur hafist.

Nóvemberfest

Stjórn hélt nóvemberhátið á árinu 2018, þar sem kynnt var til leiks sölusýning hesta í eigu Sörlafélaga. Boðnir voru upp folatollar sem félagið fékk að gjöf og að uppboði loknu var skemmtikvöld í sal félagsins. Festivalið tóks með miklum ágætum og verður gaman að endurtaka eitthvað svipað. Talsvert safnaðist af fjármunum á hátíðinni.

Reiðhallarhappdrætti Sörla

Stjórn stóð fyrir stórhappdrætti Sörla í tengslum við byggingu reiðhallar til stuðnings reiðhallarsjóði. Mikil vinna var lögð fram við að safna vinningum og ekki síst af hálfu framkvæmdastjóra sem hafði í nógu að sinna meðan á þessu verki stóð. Happdrættið var stílað inn á sölu í tengslum við Skírdagskaffi félagsins og tóks með miklum ágætum og safnaðist um 1.5 mkr. Stjórn stefnir á að endurtaka þetta, enda skapaðist skemmtileg stemmning í kringum happdrættið. Stórnin vill þakka þeim fjölmörgu aðilum sem gáfu vinninga í happadrættið. Og Sörlegélögum fyrir frábærar móttökur.

Félagshesthús Sörla starfrækt áfram.

Eftir frábærar undirtektir við rekstri félagshesthúss Sörla þá var ákveðið að auka þá starfsemi og leigja stærra hús og auka starfsemina í húsinu og fjölga börnum. Sörli leigir nú 21 hesta hús undir starfsemina og síðast þegar vitað var voru þar 25 börn skráð og að auki um 20 pollar. Því nær þetta hús að þjónusta yfir 40 börn, sem væru sennilega annars ekki að umgangast hesta flest hver. Stjórnin er afar stolt og ánægð með þetta starf sem hefur aukið skilning Hafnarfjarðarbæjar á starfsemi okkar og því hlutverki sem félagið getur gegnt í æskulýðsstarfi bæjarins. Umsjónarmönnum félagshesthússins eru jafnframt færðar miklar þakkir fyrir óeigingjarnt starf og alúð með börnunum.

Tímamótasamningur við Hraunhamar fasteignasölu.

Stjórn Sörla gerði nú á haustdögum tímamótasamning við fasteignasöluna Hraunhamar um að styrkja félagshesthúið og æskulýðsstarf félagsins á næstu 3 árum um 1.500.000. Í staðinn mun keppnisvöllur félagsins bera nafn Hraunhamars næstu 3 árin og öll mót verða auglýst á Hraunhamarsvelli. Ekki er vitað til þess að Sörli hafi áður gert sambærilegan samning. Samningurinn er mikilvægur fyrir allt starfið í félagshúsinu og æskulýðsstarfið og sýnir velvild í garð félagsins og þess sem þar fer fram.

Reiðskólamál

Sörli hóf nýtt samstarf á árinu við reiðskóla Karenar Woodrow á Álftanesi samhliða samstarfi sínu við reiðskóla Íshesta. Mikil ánægja var með nýja samstarfið og það voru ánægðir krakkar sem luku þeim námskeiðum í sumar. Ennfremur er námskeið Sörla í samvinnu við Íshesta ávallt vinsælt.

Lagabreytingar samþykktar af ÍSÍ og ÍBH

Töluvert umfangsmiklar breytingar á lögum félagsins sem samþykktar voru á síðasta aðalfundi voru samþykktar með ábendingum af ÍSÍ og ÍBH. Liggur fyrir að eldri hluti laga félagsins þarfnast lagfæringar og er það vinna sem laganefnd þarf að fara í á næsta starfsári. Endurbætt lög félagsins hafi þó tekið gildi.

Íslandsmót 2019

Sörli var meðal þeirra hestamannafélaga á höfuðborgarsvæðinu sem héldu íslandsmót í hestaíþróttum. Vel tókst til að mestu, enda veðurblíða alla mótsdagana. Fjöldi sjálfboðaliða frá félaginu mætti á svæðið og aflaði stjórn styrkja. Óverulegur halli varð af mótinu sem Sörli tekur þátt í að greiða.

Breytingar á dagskrá félagsins

Á síðasta fundi stjórnar var ákveðið að færa allar verðlaunaafhendingar og kjör á íþróttafólki Sörla á nýjan viðburð Árshátið/uppskeruhátíð félagsins sem halda á með veglegum hætti nú fyrir áramót. Einnig var ákveðið að halda sérstaka árshátíð/uppskeruhátíð fyrir yngri félagsmenn Sörla. Vonar stjórn að með þessu verði meira úr verðaunaafhendingunni en verið hefur þegar hún er einn dagskrárliður á aðalfundi.

Ákveðið var að fella nefndagrillið niður og sameina það þessum nýja viðburði.

Vinna vegna öryggismála og skipulags reið- og göngustíga.

Mikil vinna hefur verið lögð í það á árinu að taka öryggismál félagssvæðisins til gagngerrar endurskoðunar. Unnið er að því að gera svæðið öruggara og fjarlægja hættur. Þessi vinna stendur yfir og er hvergi nærri lokið. Mikið átak þarf að gera í merkingum á svæðinu og þykir okkur hestafólki hag okkar illa fyrir komið, á okkar eigin félagssvæði, þegar algengasta merkingin á svæðinu er „hestaumferð bönnuð“.

Taka þarf til endurskoðunar málefni göngustígs sem þverar aðal reiðleið okkar Sörlamanna og breyta þarf deiliskipulagi svæðisins þannig að við fáum út af fyrir okkur það svæði sem mest er notað, ekki gengur að beina þangað stóraukinni umferð gangandi vegfarenda.

Keppni í knapafimi

Það var sérstaklega skemmtilegt að í fyrsta sinn var það hér hjá okkur í Sörla sem boðið var uppá keppni í knapafimi. Keppnin er ætluð fyrir almenning sem staddur er á mismunandi stöðum í færni sinni og þjálfun. Keppnin var fyrir aðila á nokkrum stigum sem tóku mið af knapamerkjakerfinu. Einnig var keppt í opnum flokki sem þá var sambærilegur gæðingafimi. Reiðkennarar Hólaskóla og Friðdóra Friðriksdóttir önnuðust um framkvæmd keppninnar. Keppnin tóks vel og er frábær nýjung í keppnisflóruna. Vonandi verður framhald á þessari keppni hér hjá okkur í Sörla.

 

Fjárhagur félagsins

Þrátt fyrir mikla starfsemi og tækjakaup, stendur fjárhagur félagsins traustum fótum og fer batnandi og vísast um það til fyrirliggjandi árshlutareiknings félagsins. Ljóst er að velta og innkoma félagsins eykst með aukinni starfsemi og bættri innheimtu af viðburðum og bættri fjármálastjórnun. Það er vel. Stjórnin leggur mikið upp úr því að allar nefndir geri sér grein fyrir því að við erum að höndla með peninga félagsmanna og það ber að ganga um alla fjármuni með því hugarfari.

Hækkun á félagsgjöldum

Stjórn félagsins leggur fram á aðalfundi þess tillögu um hækkun á félagsgjöldum þess í 15.000 krónur. Er það von stjórnar að vel verði tekið í þessa hækkun og að félagsmenn samþykki hana.

Að lokum vill stjórnin þakka öllum sjálfboðaliðum, starfmanni sínum og öllu hestafólki í Sörla fyrir skemmtilegt og gott starfsár.

 

f.h. Stjórnar Sörla 2018-2019

Atli Már Ingólfsson, formaður Sörla.

Reikningar félagsins

 

Kristín gjaldkeri lagði fram árshlutareikning félagsins til samþykktar sem félagslega kjörnir skoðunarmenn höfðu yfirfarið. Hún benti á að þetta væri fyrsti árshlutareikningur félagsins eftir lagabreytingu og því væri um að ræða 6 mánaða uppgjör en ekki 8 mánaða eins og áður var.

 

Farið var yfir helstu tölur rekstrar- og efnahagsreiknings en reikningar félagsins, með ítarlegum skýringum, lágu frammi á borðum fyrir fundarmenn.

 

Rekstrartekjur

 

 

 

 

 

Framlög og styrkir

 

12.261.781 kr.

Félagsgjöld og lyklaleiga

 

5.307.000 kr.

Aðrar tekjur

 

12.021.795 kr.

Húsa- og vallarleigutekjur

 

920.850 kr.

 

Rekstrartekjur alls.

30.511.426 kr.

 

 

 

Rekstargjöld

 

 

 

 

 

Laun, launat.gjöld og verktakagr.

9.649.802 kr.

Viðburðir o.þ.h.

 

5.539.703 kr.

Rekstur mannvirkja

 

4.990.240 kr.

Rekstur félagshúss

 

2.187.189 kr.

Kostnaður v/Zetor

 

56.509 kr.

Annar rekstrarkostnaður

 

4.452.276 kr.

Afskriftir

 

935.868 kr.

 

Rekstrargjöld alls.

27.811.587 kr.

 

 

 

Fjárm.tekj og fjárm.gj.

 

 

 

 

Vaxtatekjur

 

126.672 kr.

Vaxtagjöld

 

-16.452 kr.

 

 

110.220 kr.

 

 

 

 

Hagnaður ársins

     2.810.059 kr.

 

 

 

Eignir

 

 

 

 

 

Varanlegir rekstrarfj.

 

   44.125.463 kr.

Skammtímakröfur

 

     1.276.151 kr.

Veltufjármunir

 

   16.737.145 kr.

 

Eignir alls

   62.138.759 kr.

 

 

 

Eigið fé og skuldir

 

 

 

 

 

Eigið fé

 

   61.176.057 kr.

Skammtímaskuldir

 

         962.705 kr.

 

Eigið fé og skuldir alls

   62.138.762 kr.

 

 

Fundarstjóri bauð fundarmönnum upp á fyrirspurnir vegna skýrslu formanns og gjaldkera.


Umræður um skýrslu stjórnar og milliuppgjör félagsins

Fundarstjóri gaf orðið laust um skýrslu stjórnar og milliuppgjör félagsins. 

 

Guðrún Björk Bjarnadóttir spurði um framsetningu árshlutareiknings og hvort að skoðunarmenn hefðu yfirfarið hann. Kristín gjaldkeri sagði skoðunarmenn hafa yfirfarið reikninginn en þar sem að aðeins væri um að ræða árshlutareikning þyrftu þeir ekki að árita. Ársreikningur sem lagður er fram á framhaldsaðalfundi þyrftu þeir hins vegar að undirrita. 

Sigurður Emil Ævarsson spurði um hvort samþykkt hefði verið af Hafnarfjarðarbæ aukin eign Sörla í reiðhöllinni.  Atli Már formaður svaraði til að það hafi verið samþykkt. 

Darri fundarstjóri spurði hvort eigin yrði færð inn í ársreikning þessa árs.  Kristín gjaldkeri svaraði því til að það væri alveg hægt.  Finnbogi Aðalsteinsson nefndi að það myndi bara hækka fasteignagjöldin.  Halldóra Einardóttir formaður bygginganefndar sagði það væru nú lítið mál því hún myndi eyða þessu um hæl.

Guðrún Björk Bragadóttir tók svo aftur til orðs og sagði að það væri allt annar bragur á félaginu eftir að þessi nýja stjórn, formaður og framkvæmdastjóri tóku við störfum og þakkaði fundarstjóri fyrir það.

Atli Már, formaður nefndi að umsýsla utan um fjármál hefur tekið gagngerum breytingum og væri það aðallega tveimur einstaklingum að þakka þ.e gjaldkera stjórnar og framkvæmdastjóra.

Frekari umræður urðu ekki um skýrslu stjórnar né reikninga félagsins.

Fundarstjóri bar upp skýrslu stjórnar og reikninga félagsins til samþykktar. Skýrsla stjórnar og reikningar félagsins voru samþykktir samhljóða.

Kynning á starfi nefnda

Formenn/fulltrúar nefnda sögðu frá starfinu á árinu. Þær skýrslur sem bárust má finna sem fylgiskjöl með aðalfundagerðinni.

  • Ferðanefnd: Arngrímur Svavarsson greindi frá starfi nefndarinnar fyrir hönd Ástu Snorradóttur. 
  • Fræðslunefnd: Þórunn Þórarinsdóttir greindi frá starfi nefndarinnar.
  • Krýsuvíkurnefnd: Guðmundur Smári Guðmundsson greindi frá starfi nefndarinnar
  • Kvennadeild:  Guðný Einarsdóttir greindi frá starfi deildarinnar fyrir hönd Gerðar Vilhjálmsdóttur.
  • Kynbótanefnd: Enginn kom frá Kynbótanefnd til að greina frá starfi nefndarinnar.
  • Laganefnd: Hafdís Arna Sigurðardóttir greindi frá starfi nefndarinnar
  • Lávarðadeild: Vilhjálmur Ólafsson greindi frá starfi deildarinnar.
  • Móta- og vallanefnd: Inga Kristín Sigurgeirsdóttir greindi frá starfi nefndarinnar fyrir hönd Stellu Bjargar Kristinsdóttur.
  • Reiðveganefnd:  Jón Ásmundsson greindi frá starfi nefndarinnar
  • Skemmti- og fjáröflunarnefnd: Brynhildur Sighvatsdóttir greindi frá starfi nefndarinnar fyrir hönd Ragnar Eggert Ágústsson.
  • Æskulýðsnefnd: Kristján Jónsson greindi frá starfi nefndarinnar fyrir hönd Dagbjartar Huldu Guðbjörnsdóttur.

Tillaga stjórnar um stofnun nýrrar nefndar um viðrunar- og beitarhólf

Stjórn Sörla starfsárið 2018-2019 leggur til að stofnuð verði ný nefnd á vegum félagsins, Viðrunarhólfanefnd.  Starfssvið hennar er að skipuleggja uppgræðslu, girðingarvinnu og nýtingu á því landsvæði sem Hafnarfjarðarbær hefur úthlutað félaginu til afnota undir viðrunarhólf, þannig að það nýtist félagsmönnum sem best. Nefndin á ennfremur að leggja til að annast um gjaldtöku í samstarfi við stjórn félagsins.  Að öðru leiti fer starfslýsing nefndarinnar eftir lögum félagsins.  Nefndin skal skipuð sex aðilum, þremur úr Hlíðarþúfum og þremur úr efri byggðinni.

Fundarstjóri bar tillögu stjórnar fyrir fundinn eins og hún var lögð fram og bauð fundarmenn að ræða hana.  Engar umræður urðu og var tillagan er samþykkt samhljóða.

Fundarstjóri upplýsti fundarmenn um það að ef nefnd er stofnun á aðalfundi þá verður að leggja hana niður einnig á aðalfundi.  Véla- og tækjanefnd er í raun og veru ekki nefnd er fyrst og fremst vinnuheiti yfir þá sem sinna vélum og tækjum Sörla.

Umræður um skýrslur nefnda 

Friðdóra Friðriksdóttir kom með athugasemd um að ekki var fjallað um mót sem haldið var, fyrst sinnar tegundar í fimi.  Aldurs og flokkaskipt mót sem þrír reiðkennarar heldu í samstarfi við Hóla.  Þetta verður sett inn í skýrslu stjórnar og mögulega mótanefndarskýrslu.

Sigurður Emil Ævarsson spurði hvort endurbætur við Hlíðarþúfur hafi verið tekið af reiðvegafé Sörla og sagði að það væri klárlega eitthvað sem Hafnarfjarðarbær hefði átt að greiða.  Jón Ásmundsson formaður reiðveganefndar svaraði því til að nauðsynlegt var að fara í þessar breytingar þótt nefndarmenn hefðu verið ósáttir við að þurfa greiða þetta.  Breytingarnar kostuðu  2.7 milljónir og  4 milljónir fóru í reiðveginn yfir Bleiksteinháls.  Vilhjálmur Ólafsson upplýst að það væri til samkomulag milli LH og vegagerðarinnar um að reiðvegur sé settur við hlið vega sem bundið slitlag er sett.  Vegagerðin sinnir þessu ekki lengur og þarf að vinna að því að minna vegagerðina á þetta samkomulag

Sigurður E. Ævarsson var með  fyrirspurn til Krýsuvíkurnefndar um það hvort beitin í Krýsuvík verði minni eða blautari við það að verið sé að moka ofan í skurðina við Krýsuvík.  Guðmundur Smári formaður Krýsuvíkurnefndar svaraði því til að moksturinn væri sunnar og hefði ekki áhrif á okkar beit.

Halldóra Einarsdóttir spurði um reiðleiðina milli Sléttuhlíðar og Smyrlabúðar   Jón Björn Hjálmarsson svaraði því til að þetta væri í umræðunni en vandinn væri að verktakar vilja hafa reiðvegi stutta og breiða.

Sigríður Sigþórsdóttir spurði hvor það væri enn samstarfsnefnd starfandi enn milli hestamannafélagana í reiðvegamálum og hvort ekki þyrfti að ræða reiðveginn frá Hafnarfirði yfir í Garðabæ um flóttamannaveg.  Jón Björn Hjálmarsson nefndarmaður reiðveganefndiar svaraði því til að samstarfsnefndin væri virk.  Búið væri að stöðva alla hestaumferð þarna á milli en að hestamannafélögin ættum rétt á að fá nýja tengingu á milli þessara hestamannafélaga.  Þetta er stórt hagsmunamál fyrir öll hestamannafélögin.  Jón sagði ennfremur að það sé búið að hringla með þennan reiðveg.  Þessi reiðvegur er ekki lengur inn á nýju skipulagi.  Á fundi sem reiðveganefndin fór á var þeim sýndur nýr reiðvegur hægra megin við Flóttamannaveginn.   Það næsta sem þeir heyrðu var sá reiðvegur yrði ekki lagður og að línuvegurinn yrði gerður að reiðvegi.  En nú er búið að loka þeim vegi. Loks á fundi með bæjarstjóra Garðarbæjar þá var fullyrt að reiðvegur yrði opnaður í janúar/febrúar 2020 við hliðina á Flóttamannaveginum.

Fleira var ekki rætt um skýrslur nefnda.

 

Kosning formanns

Atli Már Ingólfsson gaf kost á sér sem áfram sem formaður og fékk hann einróma kosningu.

Kosning manna í stjórn

Kjörnir eru þrír stjórnarmenn til tveggja ára á hverjum aðalfundi.

Kjörtímabili Völku Jónsdóttur, Eggerts Hjartarssonar og Kristínar Þorkelsdóttur var lokið. Thelma Víglundsdóttir óskaði eftir að hætta og því var laust sæti til eins árs í stjórn. Í stjórn sátu áfram Ásta Kara Sveinsdóttir og Stefnir Guðmundsson.

Kristín Þorkelsdóttir bauð sig fram aftur til stjórnar en Valka Jónsdóttir og Eggert Hjartarsson gáfu ekki kost á sér áfram.

Sveinn Heiðar Jóhannesson og María Júlía Rúnarsdóttir buðu sig fram til stjórnar Sörla. Kristján Jónsson bauð sig fram til stjórnar til eins árs í stað Thelmu Víglundsdóttur.

 

Stjórn 2019 – 2020 er því:

  • Atli Már Ingólfsson, formaður – kosinn til eins ár í senn
  • Ásta Kara Sveinsdóttir – á 2 ári í stjórnarsetu
  • Kristín Þorgeirsdóttir – kosin til 2 ára
  • Kristján Jónsson – kosinn til 1 árs
  • María Júlía Rúnarsdóttir – kosin til 2 ára
  • Stefnir Guðmundsson – á 2 ári í stjórnarsetu
  • Sveinn Heiðar Jóhannesson – kosinn til 2 ára

Fundurinn bauð nýja stjórnarmenn velkomna og var fráfarandi stjórnarmönnum þakkað fyrir störf fyrir félagið.  Stjórn mun skipta með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi þeirra.

Kosning skoðunarmanna

Valgeir Ólafur Sigfússon og Ingvar Teitsson buðu sig aftur til starfa og voru þeir einróma kosnir til ofangreindra verka og Gríma Huld Blængsdóttir var kosin áfram sem varaskoðunarmaður.

Kosning í nefndir

Eftirtaldir félagsmenn gáfu kost á sér til sjálfboðaliðastarfa í eftirtöldum nefndum og voru formenn kosnir sérstaklega:

Ferðanefnd

  • Ásta Snorradóttir, formaður
  • Arngrímur Svavarsson
  • Heiðrún Arna Rafnsdóttir
  • Jón Harðarson
  • Kristín Auður Elíasdóttir

Fræðslunefnd

  • Þórunn Þórarinsdóttir, formaður
  • Bjarni Sigurðsson
  • Helga Sveinsdóttir
  • Kristján Jónsson

Krýsuvíkurnefnd

  • Guðmundur Smári Guðmundsson, formaður
  • Gunnar Örn Ólafsson
  • Gunnar Þór Karlsson
  • Pétur Ingi Pétursson
  • Ólafur Þ. Kristjánsson

Kvennadeild

  • Gerður Stefánsdóttir, formaður
  • Ásta Snorradóttir
  • Guðný Einarsdóttir
  • Lilja Bolladóttir
  • Valgerður Backman

Kynbótanefnd

  • Snorri Rafn Snorrason, formaður
  • Einar Valgeirsson
  • Geir Harrysson
  • Helgi Jón Harðarson
  • Oddný M. Jónsdóttir
  • Stefán Guðmundsson
  • Vilhjálmur Karl Haraldsson

Laganefnd

  • Hafdís Arna Sigurðardóttir, formaður
  • Darri Gunnarsson
  • Stefanía Sigurðardóttir

Lávarðanefnd

  • Páll Ólafsson, formaður
  • Thelma Víglundsdóttir, aðalritari

Móta- og vallanefnd

  • Stella Björg Kristinsdóttir, formaður
  • Aníta Róbertsdóttir
  • Bryndís Arnarsdóttir
  • Brynhildur Sighvatsdóttir
  • Haukur Sigfússon
  • Inga Kristín Sigurgeirsdóttir
  • Jóhanna Freyja Ásgeirsdóttir
  • Jónas Aron Jónasson
  • Stefnir Guðmundsson

Reiðveganefnd

  • Jón Ásmundsson, formaður
  • Jóhann Sigurður Ólafsson
  • Jón Björn Hjálmarsson
  • Ólafur F C Rowell

Skemmti- og fjáröflunarnefnd

  • Ásthildur Guðmundsdóttir
  • Bertha María Waagfjörð
  • Bjarney Grendal Jóhannesdóttir
  • Brynhildur Sighvatsdóttir
  • Einar Ásgeirsson
  • Ragnar Eggert Ágústsson
  • Soffía Elín Sigurðardóttir, formaður
  • Unnur Elsa Ingólfsdóttir

Sörlastaðanefnd

  • Grétar Ómarsson
  • Ísleifur Þór Erlingsson
  • Pálmi Þór Hannesson
  • Stefnir Guðmundsson

Nefndinni var falið að finna formann sem færi fyrir nefndinni.

Viðrunarhólfsnefnd

  • Claudia Schenk – Hlíðarþúfur
  • Jóhann Sigurður Ólafsson, Hlíðarþúfur
  • Ragnar Eggert Ágústsson, Hlíðarþúfur
  • Smári Adólfsson – Efri byggð
  • Þórhallur Sverrirsson – Efri byggð

Nefndinni var falið að finna formann sem færi fyrir nefndinni sem og að finna einn nefndarmann frá efri byggð.

„Véla- og tækjanefnd“

  • Ásbjörn Helgi Árnasson
  • Kristján Jónsson

Æskulýðsnefnd

  • Dagbjört Hulda Guðbjörnsdóttir, formaður
  • Auður Ásbjörnsdóttir
  • Elín M. Magnúsdóttir
  • Guðbjörg Anna Guðbjörnsdóttir
  • Jóhanna Ólafsdóttir
  • Svanbjörg Vilbergsdóttir

Árgjald næsta ár

Atli Már formaður fór yfir árgjöld mismunandi hestamannafélaga og talaði um að 10.000 væri  lítil upphæð í félagsgjald og með því lægsta sem gerist hjá hestamannafélögum. Sjálfboðaliðastarf er mjög mikið og þarft en tekjur skipta einnig máli ef við ætlum að halda áfram að framkvæma og bæta þjónustu hjá Sörla. Stefna stjórnar er að greiða niður fyrir barna og unglingastarf. Lagt var til að hækka árgjaldið í 15.000 kr.sem væri það sama og hjá Spretti og að 18 ára og yngri og 70 ára og eldri ekkert.

Stjórn samþykkti að með félagsgjaldinu fengi félagsmenn auk aðgang að Worldfeng, einnig  aðgang að myndböndum í WF.

Töluverð umræða spannst um tillögu stjórnar. Sitt sýndist hverjum um þetta mál. Jón Björn Hjálmarsson sagði að þetta væri mjög gróf hækkun 50% hækkun algjörlega 25% er hámark.  Halldóra Einarsdóttir nefndi að miðað við það sem formaður las upp um félagsgjöld hestamannafélagana þá yrðum við í hæsta klassa.  Ingibergur Árnason taldi í lagi að hækka árgjaldið en fannst þetta ansi bratt fyrir ungmenni sem enn eru í skóla.

Halldóra Einarsdóttir var ekki ósátt sem einstaklingsgjald en lagði til að ungmennagjaldið yrði óbreytt

Inga Kristín Sigurgeirsdóttir upplýsti fundinn um að Sleipnir væri að rukka 8.000 og inn í því væri reiðhallarlykill.

Jóhanna Ólafsdóttir var einnig ekki ósátt  við einstaklingsgjaldið en lagði til að hafa ungmennagjaldið verði óbreytt en að öryrkjar verið einnig með óbreytt gjald eða 10.000. 

Jón Björn Hjálmarsson lagði fram tillögu um að félagsgjaldið væri 12.500..

Sigríður Sigþórsdóttir lagði fram tillögu að einstaklingsgjaldið yrði 15.000 en að í árgjaldi ungmenna fengju þau reiðhallarlykil og aðgang að reiðskemmunni

Atli formaður áréttaði að það væri mikil vinna fyrir framkvæmdastjóra og gjaldkera ef búið yrði til aukið flækjustig með mismunandi upphæðum.  Bað fólk að velta fyrir sér æfingargjöld barna í öðrum íþróttum.

Samþykkt var tillaga stjórnar með breytingatillögu Sigríðar Sigþórsdóttur þ.e. að hækka árgjaldið í 15.000 og að í árgjaldi ungmenna sé reiðhallarlykill með aðgang að reiðskemmunni.

 

Reiðhallarmál

Halldóra Einarsdóttir fór yfir stöðu reiðhallarmáls.  Hún sagði að við værum efst á lista í forgangsröð hjá ÍBH.  Skorið verður niður til íþróttamála hjá Hafnarfirði þar sem ekki er verið að selja lóðir í Skarðshlíð.  Fundað var með bæjarstjóra Hafnarfjarðar og var sagt á þeim fundi að reiðhöllin væri of dýr. Búið er að áfangaskipta reiðhallarbyggingu til að sína fram á lækkun kostnaðar.  Búið að skera svo mikið niður að við getum ekki skorið meira niður.  Fundur verður haldin fljótlega með bæjarstjóra þar sem farið verður yfir skýrsluna um reiðhöllina og minnt á kosingarloforðið þ.e. að farið verður eftir forgangsröð IBH. Einnig verður rætt um hesthúsalóðir þar sem búið var að lofa að breyta þeim, minnka og gera fólki kleift að kaupa.

Stefán Már: Er í starfshópi með Halldóru.  Hann sagði að þetta hafi verið mjög áhugaverð vinna.  Það sem upp var lagt verður ekki að veruleika en það sem er nú er á teikniborðinu verður mjög flott, glæsilegt.  Hrósaði hann Sörla og félagsmönnum sem hafa unnið að þessari vinnu fyrir frábæra vinnu.  Verið með gott fólk og sem hefur unnið mjög vel og alls ekki kastað til höndunum. Sem dæmi nefndi hann það að fara í borholur til að athuga hvort bergfestur séu nægilegar góðar til að finna leið til að lækka kostnað væri frábært.  Hann tjáði fundarmönnum að aðstæður í bænum eru ekki góðar. Lóðir eru ekki að seljast nægilega vel og mikil barátta um íþróttamannvirki.  Loks sagði hann að það væru mikilvægir dagar framundan hjá Sörlafélögum þar sem fjárhagsáætlun er í vinnslu hjá Hafnarfjarðarbæ.  Nú þurfa allir að berjast og koma þessu reiðhallarmáli í höfn.

Félagshesthúsið

Auður og Guðbjörg kynntu starfsemi félagshesthús, bæði upphaf tilraunastarfsins og þróun starfseminnar.  Börn í félagshesthúsinu hafa tekið virkan þátt í viðburðum Sörla.  Með breyttu skipulagi og rekstrarformi var hægt að hagræða þannig að nú stendur þetta undir sér.  Það er troðfullt í félagshúsinu og gengur mjög vel. Spennandi vetur frammundan.  Fundarmenn voru yfir sig hrifnir af þessu verkefni og fengu þær lof frá mörgum fundarmönnum.

Freyja Aðalsteinsdóttir spurði hvort það væru einhverjir drengir sem væru í félagshúsinu. Starfsmenn félagshússins svöruðuð því til að þeir væru tveir og það væri verkefni að fjölga

Góðum og öflugum aðalfundi félagsins var slitið kl. 23.30

 

Samþykkt, 20.október 2019

Atli Már Ingólfsson, formaður
Valka Jónsdóttir, ritari aðalfundar.

Birtingardagsetning: 
mánudaginn, 21. október 2019 - 10:06
Viðburðardagsetning: 
þriðjudaginn, 8. október 2019 - 20:00
Vettvangur: