Efni: Stjórnarfundur Sörla
Fundur nr.: 9 - 2019
Staður og stund: Sörlastaðir, miðvikudagur 15. ágúst
Mættir stjórnarmenn: Atli Már Ingólfsson, Kristín Þorgeirsdóttir, Ásta Kara Sveinsdóttir, Thelma Víglundsdóttir, Valka Jónsdóttir
Áheyrnarfulltrúi: Sigríður Kristín Hafþórsdóttir, framkvæmdastjóri Sörla
Fjarverandi: Eggert Hjartarson, Stefnir Guðmundsson
Ritari fundar: Valka Jónsdóttir
Fyrirliggjandi dagskrá:
- Félagshesthús, þróun mála staðan og framhaldið.
- Önnur mál.
Félagshesthús
Tilraunaverkefni um reksturs félagshúss var rekið á fyrri hluta þessa árs. Rekstur félagshússins fór fram úr kostnaðaráætlunum og er talsvert þungur fyrir rekstur Sörla. Niðurstaða stjórnar í lok tilraunaverkefnisins var sú að þrátt fyrir að mikilvægt sé að reka félagshús og fá þannig m.a. inn nýliðun þurfi að breyta rekstrarforminu þar sem félagið hefði ekki bolmagn til að reka slíkt hús í óbreyttri mynd.
Umsjónarmenn tilraunaverkefnis um rekstur hússins, Guðbjörg og Auður, hafa mikinn áhuga á að halda áfram með starf félagshesthúss og komu að máli við stjórn. Lögðu þær fram fjárhagsáætlun og hugmyndir að því hvernig væri best að reka húsið m.a. með hækkun á þátttökugjöldum. Hugmynd þeirra væri að hefja starfið frá og með byrjun september og reka húsið fram til loka maí á næsta ári.
Leiga á húsi. Sörli er að skoða möguleika á að leigja 20 hesta hesthús undir þessa starfsemi og eru viðræður í gangi.
Langtímastyrktarsamningur: Þá hefur Sörli náð samningum við Hraunhamar fasteignasölu um að styrkja starfið um 500.000 árlega næstu 3 ár. Samningsdrög liggja fyrir og inntakið er það að Hraunhamar fær að kalla keppnisvöllinn Hraunhamarsvöll í 4 ár þ.e.a.s. 2019, 2020, 2021 og 2022.
Fleiri styrktaraðilar: Rætt hefur verið við nokkra aðila með ósk um stuðning og eru nokkrir að skoða það en náðst hafa styrkir upp á 300.000 í ár til viðbótar við samninginn við Hraunhamar.
Hafnarfjarðarbær: Einnig er búið að tala við nokkra aðila innan Hafnarfjarðarbæjar sem eru mjög áfram um þetta verkefni og hafa tekið jákvætt í að styrkja það en nákvæm svör frá bænum liggja ekki fyrir fyrr en um áramót þar sem áætlunargerð stendur yfir á haustmánuðum.
Fjárhagstaða Sörla: Það er ljóst að um er að ræða mikinn kostnað við rekstur á félagshúss og ekki er allt fast í hendi með fjármögnunina. Lausafjárstaða Sörla er ekki eins góð og hún hefur verið en á framhaldsaðalfundi samþykktu félagsmenn að loka/festa fjármagn vegna fyrirhugaðrar byggingu reiðhallar á sérstökum reikningi til þess verkefnis. Það að festa fjármagn í ákveðnu verkefni krefst aðhalds og útsjónarsemi hvað varðar önnur verkefni.
Niðurstaða: Vegna þessa er ekki einhugur meðal stjórnarmanna um hvort tímabært sé að fara í það verkefni að reka félagshús. Allir stjórnarmenn eru sammála um að Sörli eigi að vera með þjónustu líkt og félagshesthús þar sem börn og ungmenni sem ekki eiga aðstandendur í hestum geti kynnst þessari íþrótt. Hins vegar deilir stjórn um hvort þetta sé tímabært þ.e. hvort fara eigi af stað í haust eða bíða þar til niðurstaða liggur fyrir um það hvort Hafnarfjarðarbær muni styrkja þetta starf og þá hversu mikið og einnig hvort þetta fyrirkomulag sé það besta í stöðunni. Meirihluti var samt sem áður fylgjandi verkefninu og mun því starfsemin fara af stað með nokkrum skilyrðum sem, í byrjun, öll lúta að því að gera verkefnið sjálfbært hvað varðar fjármuni.
Önnur mál
- Mótanefnd er á fullu að undirbúa gæðingaveislu í ágúst. Góður andi í hópnum og fólk spennt að takast á við mótið.
- Rætt var um mögulegan haustfagnað líkt og var haldið í fyrra “Nóvemberfest” sem gekk svo glimrandi vel.
- Ný lög Sörla tóku gildi á framhaldsaðalfundi í mars en þá var samþykkt að færa aðalfund fram í september og er vinna hafin við undirbúning hans m.a. að taka saman sex mánaða uppgjör Sörla.
- Stjórn er almennt afskaplega ánægð með hve vel hefur tekist til við þau viðhaldsverkefni sem áætluð voru á s.l. vetri. Ljóst var að mörg verkefni lágu fyrir og Diddu framkvæmdastjóra falið að koma þeim í framkvæmd.
- Stjórn tók aftur upp umræðuna um annað fyrirkomulag hins svokallaða ,,Nefndargrills“ sem viðhaft hefur verið undanfarin ár. Ákveðið var að taka umræðuna við skemmti-, móta-, og kynbótanefnd um framkvæmdina.
Fundi slitið kl. 23.00
Samþykkt,
dags: 16. ágúst 2019
fyrir hönd stjórnar
Atli Már Ingólfsson
Valka Jónsdóttir