Hestadagar voru settir með pomp og prakt í miðborg Reykjavíkur laugardaginn 28.apríl. 2018.  Fulltrúar Sörla fjölmenntu í hina árlegu skrúðreið um miðborgina. Skrúðreiðin taldi um það bil 150 hross og jafnmarga menn og í fararbroddi fór fjallkonan í skautbúningi og söðli ásamt fylgdarmanni. Veðrið lék við þáttakendur og var allt eins og best verður á kosið. Lagt var upp við Læknagarð og riðið upp Njarðargötu að Hallgrímskirkju þar sem borgarstjórinn í Reykjavik, Dagur B. Eggertsson, ávarpaði hestamenn og aðra gesti. Karlakór söng síðan fyrir gesti af íslenskum hestamannasið m.a. gamalt ljóð Jónasar Hallgrímssonar ,,Réttarvatn" auk fleiri söngva. Leiðin lá síðan niður Skólavörðustíg og Bankastræti og niður á Austurvöll þar sem fólk gat heilsað upp á hestana sem vakti mikla kátínu ekki síst meðal erlendra ferðamanna. Frá Austurvelli var síðan riðið eftir Tjarnargötunni og í gegnum Hljómskálagarðinn og að byrjunarreit við Læknagarð. Það var sérstaklega gaman að sjá okkar fólk fjölmenna í miðbæ Reykjavíkur á þessum hátíðisdegi íslenska hestsins. Miðað við undanfarin á má segja að metþátttaka hafi verið hjá okkar fólki en að öllum líkindum hafa á milli 25 og 30 Sörlafélagarar tekið þátt. Fánaberar í ár voru þau sömu og í fyrra þau Jónína Valgerður og Huginn Breki. Við þökkum Sörlafélögum kærlega fyrir þátttökuna. Að hátíðinni standa Landssamband hestamannafélaga í samstarfi við Íslandsstofu og hestamannafélögin um land allt. 

Birtingardagsetning: 
þriðjudaginn, 1. maí 2018 - 19:15
Sörli Hestamannafélag, Íþrótt, Lífstíll