Birtingardagsetning: 
fimmtudaginn, 5. apríl 2018 - 17:31

Yfirlýsing frá Mótanefnd Sörla vegna Vetrarleika Sörla 2018

Fyrr í vetur ákvað mótanefnd að allir félagsmenn Sörla gætu keppt á vetrarleikum þó þeir væru í fleiri félögum og ákveðnir í að keppa á opinberum mótum fyrir annað félag.

Rökstuðningur okkar fyrir þessari ákvörðun er í grunninn sú að ekki er um opinber gæðingamót að ræða.

Reglur mótaraðarinnar eru skrifaðar innan Sörla með óljósri tilvísun í reglugerð Landsambands Hestamanna (LH) um gæðingamót.

Þessi mót og niðurstöður eru ekki skráð í keppnisgrunn LH.

Mótin eru rekin í formi sem standast einungis að litlu leyti reglur LH um gæðingakeppni.

Því teljum við að um óformleg mót séu að ræða og Sörli geti ákveðið reglur mótanna óháð opinberum reglum LH.

Þessi ákvörðun leiddi til þess að fleiri keppendur tóku þátt jafnvel keppendur sem ætla að skrá opinberan árángur sinn fyrir önnur félög.

Nú liggur þessi ákvörðun mótanefndar undir ámæli og málið í skoðun hjá LH.

Við höfum því ákveðið í samráði við hluteigandi keppendur að endurskoða afstöðu okkar vegna óvissu um afstöðu LH og til að forðast frekari árekstra.

Hér tilkynnist því að keppendur Vetrarleika Sörla sem hyggjast keppa opinberlega fyrir hönd annars félags árið 2018 geti einungis keppt sem gestir á Vetrarleikum Sörla 2018.

Gestir keppa eins og aðrir, fá einkunnir og röðun birta en fá ekki formlegt sæti né verðlaun á mótaröðinni.

Mótanefnd hefur í samráði við hluteigandi keppendur komist að þeirri niðurstöðu að uppfæra fyrri niðurstöður til samræmis og keppni þeirra verði skráð sem gestir.

Birt stigatafla á heimasíðu Sörla verður uppfærð hið fyrsta. Engar breytingar á stigum eru fyrirséðar í yngri flokkum né skeiði.