Breytingar hafa orðið í ferðanefnd Sörla; þau Guðríður Arnardóttir og Ingvar Teitsson hafa látið af nefndarsetu og eru þeim þökkuð góð og vel unnin störf í þágu félagsins. Í stað þeirra eru komnir inn þeir Ísleifur Pálsson og Páll Gauti Pálsson og eru þeir boðnir velkomnir til starfa. Nefndin er núna þannig skipuð; Kristján Jónsson formaður, Ása Hólmarsdóttir gjaldkeri, Þórunn Þórarinsdóttir ritari, Ísleifur Pálsson meðstjórnandi og Páll Gauti Pálsson meðstjórnandi. Ferðanefndin er þegar búin að funda og skipuleggja dagskrá vetrarins og fram á sumar. Dagskráin samanstendur m.a. af föstum liðum eins og félagsreiðtúrum, Skírdagsreið og Sumarferð Sörla 2015. Í fyrra var bryddað upp á því að heimsækja hestamannafélagið Dreyra á Sumardaginn fyrsta og mæltist það vel fyrir. Sameinuðust Dreyra og Sörlafélagar í skemmtilegum reiðtúr í nágrenni Akraness og svo var pylsupartý á eftir. Nefndin er að leggja drög að því að heimsækja annað hestamannafélag á Sumardaginn fyrsta 2015 og verður það auglýst síðar. Vetrardagskrá ferðanefndar hefst að sjálfsögðu á Gamlársdagsreiðtúrnum 31. desember 2014 og hefur hún alltaf verið fjölmenn og skemmtileg. Félagar ferðanefndar hlakka til allra reiðtúranna og vonumst við til að sjá ykkur sem flest í félagsreiðtúrum Sörla í vetur. Allar upplýsingar verður að finna í vetardagskrá Sörla sem verður send út til félagsmanna og sett á heimasíðuna. Einnig verða viðburðirnir auglýstir sérstaklega á heimsíðu Sörla og á facebook.
Með kveðju ferðanefnd Sörla.