Í gær bárust þær fréttir að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði hefðu í hyggju að byggja tvö knattspyrnuhús og verður tillaga þess efnis borin upp á morgun á bæjarstjórnarfundi. Þessi frétt kom okkur í Sörla í opna skjöldu. Fyrir tveimur árum var sett á fót nefnd af hálfu Íþróttabandalags Hafnarfjarðar (ÍBH). Þessari nefnd, var falið að koma með tillögur að forgangsröðun nýrra íþróttamannvirkja. Nefndin skilaði af sér tillögum á nýafstöðnu þingi IBH. Sjálfstæðismenn virðast ekki ætla að taka tillit til tillagna IBH sem var þó óskað eftir af hálfu bæjaryfirvalda. Því bygging reiðhallar hjá Sörla var þar ofarlega á lista. Það er því mikið áfall fyrir okkur í Sörla að Sjálfstæðismenn ætli sér að ganga framhjá okkur. Bæjarstjórnarfundurinn verður haldinn á morgun 21. júní kl. 14:00 og munu fulltrúar stjórnar Sörla mæta þar.
Í kjölfar þessarar fréttar sendi stjórn Sörla eftirfarandi bréf til kjörinna bæjarfulltrúa og bæjarstjóra.
Frá: Stjórn Hestamannafélagsins Sörla í Hafnarfirði
Til: Bæjarstjórnar og bæjarstjóra Hafnarfjarðar
Fréttir gærdarsins komu eins og blaut tuska í andlit okkar í Hestamannafélaginu Sörla. Samkvæmt því sem kemur fram í dagskrá fyrir bæjarstjórnarfund 21. júní n.k. er gengið framhjá samþykkt nýafsaðins IBH þings um byggingu reiðhallar hjá Sörla. Með því að samþykkja tillögu sjálfstæðismanna um byggingu knattspyrnuhúsa bæði hjá FH og Haukum án þess að nefna reiðhöll Sörla er ekki hægt að líta svo á að tillagan sé í anda samþykktar íþróttahreyfingarinnar í Hafnarfirði. Fæst ekki séð annað en að með þrýstingi reyni nú “stóru” íþróttafélögin Haukar og FH að koma sínum hagsmunum að þannig að önnur verkefni fái ekki nægilega fjármögnun hjá bæjaryfirvöldum.
Úr dagskrá bæjarstjórnarfundar 21. júní.
9. 1706255 - Uppbygging íþróttamannvirkja, aðstaða til knattspyrnuiðkunar
Lögð fram tillaga bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks:
Uppbygging íþróttamannvirkja - aðstaða til knattspyrnuiðkunar
Lagt er til að Hafnarfjarðarbær fjármagni og framkvæmi uppbyggingu aðstöðu til iðkunar knattspyrnu í bæjarfélaginu á árunum 2018-2021. Byggð verði knatthús að Kaplakrika og á Ásvöllum samkvæmt tillögum Fimleikafélags Hafnarfjarðar og knattspyrnufélagsins Hauka. Gert er ráð fyrir að árlega fari 300-400 milljónir króna af eigin fé sveitarfélagsins, í framkvæmdirnar næstu fjögur árin. Markmiðið er að bæta aðstöðu til knattspyrnuiðkunar ungmenna í sveitarfélaginu í takti við áherslur ÍBH, ört vaxandi fjölgun iðkenda og heilsustefnu Hafnarfjarðarbæjar.
Greinargerð:
Á þingi ÍBH sem haldið var í maí sl. var samþykkt ný forgangsröðun íþróttamannvirkja og áætlun um uppbyggingu næstu fimm árin. Þar er lagt til að reistir verði yfirbyggðir knattspyrnuvellir á íþróttasvæðunum við Kaplakrika og Ásvelli. Eins og kom fram í úttekt sem íþróttafulltrúi Hafnarfjarðarbæjar lagði fyrir bæjarráð 18. maí sl. er brýn þörf á bættri aðstöðu til knattspyrnuiðkunar á báðum stöðum á veturna. Þar kemur fram að hátt í tvö þúsund börn og ungmenni æfa knattspyrnu í Hafnarfirði og fer iðkendum ört fjölgandi, bæði vegna fjölgunar íbúa og sífellt vaxandi áhuga á íþróttinni. Nú er svo komið að aðkallandi er að bæjarfélagið byggi upp og efli aðstöðu til knattspyrnuiðkunar í takti við íbúaþróun, uppbyggingu nýrra hverfa og almennt aukinn áhuga á knattspyrnuiðkun jafnt á meðal karla sem kvenna. Góður árangur knattspyrnulandsliðanna undanfarin ár og misseri hefur þar mikil áhrif á. Hafnarfjörður státar almennt af góðri aðstöðu til íþróttaiðkunar. Uppbygging á aðstöðu til knattspyrnuiðkunar er mikilvægur þáttur í því að efla og styðja við þann uppgang sem blasir við innan íþróttagreinarinnar um land allt.
Í tilvitnun í funarboð hér að ofan er vitnað í forgangsröðun sem unnin var í milliþinganefnd IBH og sú forgangsröðun tekin úr samhengi. Milliþinganefnd starfaði í tvö ár. Þar sátu fulltrúar nokkurra íþróttafélaga bæjarins. Mikil vinna fór í að koma með tillögu sem væri sanngjörn og þjónaði sem flestum iðkendum og í sátt við íþróttafélög Hafnarfjarðar. Tillagan fól ekki í sér að setja tvö knattspyrnuhús í forgang á kostnað annara framkvæmda.
Fulltrúar íþróttahreyfingarinnar voru sammála um nauðsyn þess að reisa reiðhöll í Sörla, enda hefur bærinn ekki komið að neinum framkvæmdum í Sörla í meira en 20 ár. Á þessum tíma er búið að byggja fjölmörg íþróttamannvirki í Hafnarfirði, má þar nefnda t.d. Íþróttahús við Ásvelli, Ásvallalaug, Bjarkarhús, tvo fótboltahús í Kaplakrika og frjálsíþróttahús og nú er í byggingu íþróttasalur við Ásvelli.
Aðstaða hestamannafélagsins Sörla stenst engan samanburð við hestamannafélög í nágrannasveitarfélögum og flótti hefur verið úr Sörla í hestamannafélagið Sprett í Kópavogi. Sumt okkar besta keppnisfólk hefur þegar sagt skilið við Sörla og gengið í raðir Spretts. Í Spretti er fyrirmyndaraðstaða til kennslu, reiðhöll sem hægt era ð skipta upp í þrjá kennslusali. Enda hefur verið mikil uppbygging á svæðinu. Hafnarfjarðarbær hefur nú í hyggju að auglýsa hesthúsalóðir til sölu og miðað við núverandi aðstöðu hjá okkur í Sörla er ekki hægt að búast við að eftirspurnin verði mikil. Hestamenn í Hafnarfirði eru líka foreldrar og er eðlilegt að þegar fjárfest er í hesthúsi eða hesthúsbyggingu hafi aðstaða til kennslu og innanhússiðkunar mikið að segja um val á staðsetningu enda ekki langt að fara á milli bæjarfélaga. Hestamennska er síður en svo baggi á sveitarfélaginu, áhugavert væri fyrir bæjarfulltrúa að skoða fasteignatekjur bæjarins af hesthúsabyggðinni og mögulegum framtíðartekjum af óseldum hesthúsalóðum.
Hestamannafélagið Sörli óskar eftir því að full tillit sé tekið til tillagna 50. þings IBH og ekki gert lítið úr vinnu milliþinganefndar. Bæjaryfirvöld hafa í höndunum vinnu milliþinganefndar sem samþykkt var á 50. þingi IBH. Stjórn Sörla skorar á bæjaryfirvöld að nota tækifærið og láta ekki þrýsting frá einstökum íþróttafélögum innan bæjarins hindra sig í því að fara eftir sameiginlegum tillögum allra íþróttafélaga bæjarins. Hverfum ekki aftur til ófaglegra vinnubragða. Ef slíkt er gert er öll vinna sem unnin er á sameiginlegum vettvangi gengisfelld og hvati til áframhaldandi starfs á faglegum grunni lítill.
Stjörn Sörla fer því fram á það að fyrirliggjandi tillögu verði breytt og bygging reiðhallar sett þar inn til jafns við fótboltahúsin til að endurspegla raunverulega niðurstöðu 50. þings ÍBH.