10.-15. júní sl. var hin árlega Sörlaferð farin. Gist var allar nætur á bænum Fossnesi rétt ofan við Árnes í Skeiða-og Gnúpverjahreppi. Þar er húsráðandi Sigrún Bjarnadóttir sem jafnframt var farastjóri í ferðinni. Sigrún er mörgum hestamönnum að góðu kunn og hefur hún verið farastjóri í ótal hestaferðum í gegnum tíðina. Hún hefur búið í Fossnesi í um 40 ár og því gjörkunnug svæðinu.
Alls voru 28 manns í hnakk auk hins góða fararstjóra hennar Sigrúnar, hópnum fylgdu um 80 hross. Knapar voru 4 daga í hnakk og voru dagleiðirnar frá 25 km. í rúmlega 30 km. Fyrstu tvo dagana var rekið en seinni tvo dagana var teymt. Því þá var riðið um tún og bæjarhlöð og því ekki heppilegt að vera með 50 laus hross. Fyrsta daginn var riðið frá Fossnesi um Sandártungu inn að Kletti alls um 25 km. og hestar hafðir þar um nóttina. Daginn eftir var riðið frá Kletti um Þverárdal og Blakkadal heim Fossnes, dagleiðin um 25 km. Þriðja daginn var farið frá Fossnesi þvert yfir Hamarsheiðarhaga inn Laxárdal, gott nestis stopp gert við bæinn Laxárdal hjá systur Sigrúnar í Fossnesi. Síðan var riðið með Stóru-Laxá heim í Fossnes alls voru þetta 32 km. Fjórða daginn var riðið niður með Þjórsá að fossinum Búða, góð áning var svo gerð hjá heiðurshjónunum á Minna Hofi. Á leiðinni tilbaka í Fossnes var m.a. riðið um Löngudælaholt, dagleiðin alls um 30. km.
Veðrið lék við ferðalanga alla dagana og má segja að stundum hafi jafnvel verið fullheitt. Öll aðstaða í Fossnesi er til fyrirmyndar bæði fyrir hesta og menn. Rúmgóður heitur pottur er við húsið sem var mikið notaður í lok hvers dags.
Eins og venja er í Sörlaferðum hjálpast allir að við matartilbúning, þrif og annað sem þarf að gera og gekk sú samvinna með afburðum vel. Eftir góðan kvöldmat var setið og spjallað og að sjálfsögðu tóku menn lagið við dynjandi harmonikkuleik Helgu Bryndísar og svo gítarleik Jóa þegar hann mætti á svæðið.
Ferðin gekk ekki stóráfallalaust fyrir sig, urðu sumir fyrir minni óhöppum og aðrir meiri en þetta fór sem betur fer vel og eru allir á góðum batavegi.
Ferðanefnd þakkar öllum fyrir ferðina og hlakkar til næsta starfsárs með mörgum félagsreiðtúrum og svo sumarferð Sörla 2015.
Meðfylgjandi eru myndir teknar í ferðinni af þeim Ásu Hólmarsdóttur og Sigurgeiri Ara Sigurgeirssyni.