Eins og fyrra ætla ég að birta umfjöllun um kynbótahross í eigu Sörlafélaga
Kynbótasýningar vorsins byrjuðu með miklum krafti i vor á félagssvæði Spretts en þar voru sýnd 92 hross, þar áttu Sörlafélagar nokkur hross og fóru þau öll í mjög góða dóma.
Fyrst í þessari umfjöllun er Katla frá Hemlu II, en Katla náði þeim magnaða árangri að hljóta hæðsta dóm sem 6v meri hefur hlotið! Hún er efst inná Landsmót í flokki 6v mera. Katla er undan hinum magnaða Ský frá Skálakoti sem að hlýtur 1v fyrir afkvæmi á komandi Landsmóti og Spyrnu frá Síðu sem er undan Roða frá Múla og Lipurtá frá Syðra-Langolti. Eigandi Kötlu er Anna Kristín Geirsdóttir en ræktendur eru Anna Kristín Geirsdóttir og Vignir Siggeirsson. Katla hlaut 8.48 fyrir sköpulag hún fjórar níur, fyrir háls herðar og bóga, höfuð, samræmi og prúðleika. Fyrir hæfileika hlaut Katla 8.89 þar af er 9,5 fyrir vilja og geðslag og fjórar níur fyrir tölt, brokk, hægt stökk og fegurð í reið. Sýnandi Kötlu var Árni Björn Pálsson. Innilega til hamingju !
Myndina af Kötlu tók Hrafnhildur Helga Guðmundsdóttir
Herkúles frá Ragnheiðarstöðum er stórglæsilegur rauðskjóttur gæðingur. Ræktandi er Helgi Jón Harðarson en eigandi er HJH Eignarhaldsfélag ehf. Herkúles er undan Álfi frá Selfossi sem er öllum vel kunnugur og hinni mögnuðu Hendingu frá Úlfsstöðum en Hending var undan Jarli frá Búðardal og Hörku frá Úlfsstöðum. Herkúles hlaut góðan dóm sýndur sem klárhestur, hann hlaut í sköpulagseinkunn 8,70 og þar af fjórar níur, fyrir Háls herðar og bóga, samræmi, fótagerð og prúðleika. Fyrir hæfileika hlaut Herkúles 8,31 og einnig fjórar níur, fyrir tölt, brokk, stökk og fegurð í reið. Hann hlaut eina 9,5 fyrir vilja og geðslag. Glæsilegur dómur og innilega til hamingju Helgi ! Sýnandi var Daníel Jónsson.
Ísak frá Þjórsárbakka er annar rauðskjóttur gæðingur undan fyrrnefndum Herkúles og Eldingu frá Hóli sem er undan Hrynjanda frá Hrepphólum og Glódís frá Skarðsá. Ísak er fæddur Haraldi Þorgeirssyni en er í eigu Þjórsárbakka ehf. Ísak er mjög myndarlegur hestur og hlaut hann 8.79 fyrir sköpulag og þar af 9,5 fyrir háls herðar og bóga og er hann einn örfáa stóðhesta sem hafa hlotið það, Ísak fékk einnig þrjár níur í sínum sköpulagsdóm og það fyrir höfuð, samræmi og prúðleika. Fyrir hæfileika hlaut Ísak 8.07 sýndur sem klárhestur en hann fékk meðal annars 9.0 fyrir tölt, stökk og fegurð í reið. Sýnandi var Árni Björn Pálsson, til hamingju með þennan magnaða hest.
Geir Harrysson