Fundargerð Fundur nr.1 - 2017
Staður og stund: Sörlastaðir, miðvikudagur 8. nóvember
- Mættir stjórnarmenn: Einar Örn Þorkelsson, Valka Jónsdóttir, Atli Már Ingólfsson, Eggert Hjartarson, Hanna Rún Ingibergsdóttir, Kristín Þorgeirsdóttir.
- Áheyrnarfulltrúi: Þórunn Ansnes, framkvæmdastjóri Sörla
- Fjarverandi: Thelma Víglundsdóttir
- Ritari fundar: Valka Jónsdóttir
Í fjarveru formanns tók Atli Már að sér fundarstjórn og kynnti dagskrá fundar.
Verkaskipting stjórnar
- Atli Már Ingólfsson varaformaður
- Valka Jónsdóttir, ritari
- Kristín Þorbergsdóttir, gjaldkeri
- Einar Örn Þorkelsson, meðstjórnandi
- Eggert Hjartarson, meðstjórnandi
- Hanna Rún Ingibergsdóttir, meðstjórnandi
Íþróttamaður Sörla
Stjórn fékk bréf sent frá félagsmanni þar sem hann óskaði eftir útskýringum stjórnar á útreikningum stigahæstu knöpum í karlaflokki. Stigahæstu knaparnir í ár voru Snorri Dal og Sindri Sigurðsson.
Í ljós kom eftir endurskoðun að Snorri Dal var örlítið hærri í stigum en Sindri Sigurðsson, sem fékk viðurkenninguna íþróttakarl Sörla 2017. Ástæðan er að innsendar upplýsingar um keppnisárangur knapa var ekki fullnægjandi og rangar upplýsingar eru skráðar í Sportfeng. Þetta eru mistök sem stjórnin tekur alfarið á sig þar sem ekki var farið nægilega vel yfir innsendar upplýsingar.
Stjórnin harmar þessi mistök sem urðu við útreikninga, sem bæði má rekja til ófullnægjandi upplýsinga og mistaka af hálfu stjórnar við yfirferð á innsendum gögnum. Þetta verður til að læra af og verður gerð ríkari krafa um góðar og ítarlegar upplýsingar frá knöpum sem og yfirferð og rýni stjórnar yfir innsend gögn verður endurbætt til muna. Að auki mun stjórn fara vel yfir stigatöfluna, skerpa á reglum og laga þá ágalla sem bent hefur verið á svo allar forsendur séu auðskiljanlegar og útreikningar og stig skv. stigatöflu séu skýr.
Niðurstaða stjórnar eftir að hafa farið vel yfir allt málið var hins vegar sú að láta knapavalið standa þó svo að Sindri hafi verið örlítið lægri að stigum en þá er litið til þess að hann varð knapi mótsins á gæðingamóti Sörla í ár og þegar sá titill er veittur er meðal annars litið til íþróttamannslegar hegðunar. Báðir aðilar málsins hafa verið upplýstir um niðurstöðu stjórnar.
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar í heimsókn til Sörla og Íshesta
Þann 2. nóvember bauð stjórn Sörla og framkvæmdastjóri Íshesta bæjarstjórn Hafnarfjarðar ásamt bæjarstjóra í heimsókn á Sörlastaði. Markmið heimsóknarinnar var styrkja tengsl Sörla við bæinn, upplýsa um stöðu mála og veita þeim yfirsýn yfir málefni Sörla. Einnig að sýna og kynna fyrir bæjarstjórn aðstöðu okkar og reiðleiðir og leggja áhersla með rökstuðningi hversu mikilvægt er að fara í uppbyggingu á svæðinu.
Það sem m.a. var rætt voru þær viðhaldsframkvæmdir sem hafa átt sér stað nú í haust bæði í reiðhöll og á keppnisvelli, þörf fyrir nýrri reiðhöll og félagshúsi og mikilvægi þess að búa góðri aðstöðu til að þjónusta börn og hestamenn í Sörla, möguleika á þjónustu við fatlaða, reiðleiðir í upplandi Hafnarfjarðar, reið á Hvaleyrarvatni, hesthúsalóðir og lóðasamninga svo fátt eitt sé nefnt.
Síðast en ekki síst vor öryggismál rædd í víðu samengi en einnig voru öryggismálin sérstaklega rædd um nýja göngu- og hjólastígs þar sem hann þverar reiðvegi á þremur stöðum og voru allir sammála um mikilvægi þeirra og að þeim verði gætt hið ýtrasta og var okkur tjáð að fengjum tillögur fljótlega.
Þá var okkur tjáð að reiðvegurinn yfir Bleiksteinsháls verður kláraður á næsta ári.
Fundurinn tókst í alla staði mjög vel og teljum við að þessi heimsókn hafi aukið skilning og áhuga bæjarstjórnar á okkar hagsmunamálum.
Reiðþjálfun fatlaðra
Sörli hefur skrifað undir viljayfirlýsingu hestamannafélaganna á höfuðborgarsvæðinu um að koma að samstarfi við þjónustu við fatlaða.
Fundur hjá umhverfis- og skipulagssviði
Fundinn sátu fyrir hönd Sörla, Þórunn, Atli og Eggert, fyrir Húseigendafélag Hlíðarþúfna, formaður Gunnar og fyrir bæinn voru þau Berglind, Halldór og Ismael.
Stjórn Sörla mótmælti að planið þar sem Hlíðarþúfu-mölin hefur ávallt verið sett, sé skilgreint sem bílastæði. Til að komast á þetta plan þurfa ökumenn að aka reiðstíga og það er algjörlega ótækt. En það var hér í árdaga að þetta plan var skilgreint sem bílaplan og hefur skógræktin óskað eftir að endurvekja það og er ljós að það eru mun meira um að bílum sé lagt á þetta plan. Rætt verður við skógræktina um þetta plan en stjórn Sörla mun ekki linna látum fyrr en þetta verður komið í höfn.
Nýja deiliskipulagið fyrir Sörlasvæðið, þ.e. íþróttasvæði Sörla með nýrri reiðhöll o.s.frv. fer í auglýsingaferli í næstu viku.
Farið var yfir tillögu Hafnarfjarðarbæjar um þau öryggisatriði sem búið er að teikna inn á göngu- og hjólreiðarstíginn. Almenn ánægja var með það sem komið er en bent var m.a. á að það þyrfti að bæta lýsingu við þverun reiðstígsins við hjólreiðarstíginn.
Einnig var rætt frekari möguleikar á beitarhólfum í nærumhverfi Sörla þ.e. hvort Hafnarfjarðarbær hefði einhverja leið til að bæta þá aðstöðu fyrir félagsmenn Sörla og hvað ætti að gera með “eignarnám” hestamanna þegar þeir setja niður girðingar hér og þar mörgum til ama og lýti á umhverfinu. En ljóst er að þau örfáu beitar- og viðrunarhólf við Hlíðarþúfur duga engan veginn.
Vetrardagskrá Sörla
Nefndirnar eru flestar komnar á fullt til að vinna að vetrardagskrá Sörla. Fundur með formönnum nefnda verður 23. nóvember kl. 19.30 en þá eiga allar nefndir að vera búnar að skila að drögum að dagskrá sinna nefnda. Skil á mótadagskrá til Landssamband Hestamanna er 23. nóvember n.k.
Formaður mótanefndar
Einar Örn Þorkelsson hefur boðist til að verða formaður mótanefndar og er fullur tilhlökkunar að takast á við starfið með góðum hópi félagsmanna í mótanefndinni.
Stofnun kvennadeildar Sörla
Nokkrar konur í Sörla hafa tekið sig saman til að stofna kvennadeild Sörla. Stofnfundur deildarinnar verður annað kvöld 9. nóvember. Tilgangur deildarinn er er að skapa samvinnu og félagslegan grunn meðal kvenna í Sörla og efla tengslanet þeirra í milli. Stjórn Sörla er virkilega ánægð með þetta frumkvæði og er viss um að konur í Sörla muni ekki liggja á sínu.
Önnur mál
Stjórnarmaður fór á áhugaverðann fyrirlestur um höfuðhögg og heilahristing. Sú hugmynd kom fram að bjóða upp á fyrirlesturinn á Sörlastöðum fyrir Sörlafélaga ásamt því að bjóða öðrum íþróttafélögum í Hafnarfirði.
Samningur við Íshesta. Drög eru komin og eiga stjórnarmenn að rýna í drögin fyrir næsta fund.
Fundi slitið kl. 22.30