Stjórnarfundur í Sörla 4. nóvember 2014
1. Fyrsta verk nýrrar stjórnar var að skipta með sér verkum . Ákveðið var samhljóða að Thelma Víglundsdóttir skyldi gegna embætti varaformanns, Þórunn Ansnes gjaldkera og Eggert Hjartarsson hlutverki ritara félagsins.
2. Fastur fundartími var ákveðinn þriðja mánudag í mánuði og mun því næsti stjórnarfundur verða haldinn 17. nóvember. Þá verða nefndarformenn einnig boðaðir til fundar.
3. Rætt var um hlutverk íþróttastjóra og fræðslu- og æskulýðsnefndar og lagt til að áhersla verði lögð á að skerpa á hlutverkum þessara aðila. Auka samtal milli þeirra og setja niður fasta fundi yfir veturinn þar sem íþróttastjóri og nefndirnar geta rætt um hugmyndir að námskeiðum og fyrirkomulag. Þórunn Ansnes, Thelma Víglundsdóttir og Sigurður Ævarsson ásamt rekstrarstjóra munu sjá til þess að þessu máli verði fylgt eftir.
4. Rætt var um skipulagsmál Hlíðarþúfna en lóðasamningar eru að renna út. Ákveðið var að semja bréf um endurnýjun lóðasamninga og óska eftir formlegu svari frá Hafnarfjarðarbæ.
5. Rætt var um stofnun hesthúsafélags í Sörlaskeiði, Kaplaskeiði og Fluguskeiði. Hlutverk félagsins yrði þá meðal annars að stuðla að uppbyggingu á svæðinu og staðið hefur til að koma upp hringgerði. Hverfisvernd hvílir á svæðinu sem kemur í veg fyrir að hægt sé að koma upp gerðinu en unnt er að aflétta henni með beiðni til bæjarins. Ásgeir tekur að sér að vinna í þessu máli.
6. Eggert Hjartarson kom með athugasemd um að möl vantaði í suma af upplýstu reiðvegunum og ákveðið var að bera málið upp við reiðveganefnd.
7. Rætt var um umgengni á félagssvæðinu. Mjög slæm umgengni hefur áfram verið við rúlluplastgám þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til þess að hvetja fólk til að ganga betur um. Ákveðið var að fjarlægja gáminn í bili enda kostnaður sem honum fylgir og sóðaskapur og jafnvel hætta fyrir ríðandi fólk getur skapast af fjúkandi rúlluplasti sem skilið er eftir við gáminn. Einnig var rætt um losun fólks á skít hér og þar um hesthúsahverfið, í gjótur og á akvegi milli húsa. Þetta er ótækt og ákveðið var að setja út tilkynningu þar sem mælst er til þess að félagsmenn hugi betur að umgengni og verklagsreglum við losun úrgangs í hesthúsahverfum.
8. Vefsíðumál. Sitt sýnist hverjum um útlit nýju síðunnar en allir eru sammála um að nú standi til bóta að virkja hana meira og hefur hún verið vel virk síðan rekstrarstjóri tók við félaginu. Hvatt var til þess að fréttir verði birtar úr félagsstarfinu líkt og var gert af knapamerkjanámskeiðum nýverið. Ákveðin virkni verður bætt á síðunni, sett inn dagatal með opnunartímum í reiðhöll og möguleiki fyrir félaga að senda inn smáauglýsingar.
9. Starfsmannamál. Rætt var um tímabundna ráðningu umsjónarmanns til áramóta. Eggert Hjartarsson hefur tekið að sér að sinna störfum umsjónarmanns í 40% starfi fram til áramóta. Ákveðið var að leita til atvinnuþjónustu Hafnarfjarðarbæjar um þátttöku í atvinnuúrræði þar sem starfsmaður verður fenginn af atvinnuleysisskrá og laun hans niðurgreidd af bænum. Ef umsóknin verður samþykkt, verður starfið auglýst þegar í stað.
10. Önnur mál. Rætt var um lyklamál og umgengni á Sörlastöðum. Fjöldi fólks hefur lykla að Sörlastöðum og nauðsynlegt að ná einhverri yfirsýn yfir fólk sem ber lykla að húsinu.
11. Tillaga kom frá stjórnarmönnum að nýta betur áskrift að Stöð 2 Sport og bjóða félagsmönnum upp á að hittast að Sörlastöðum þegar Meistaradeildin í hestaíþróttum hefst. Slíkt hefur verið gert hjá Fáki og mæltist vel fyrir.