Hið árlega og stórskemmtilega Kvennatölt Spretts og Mercedes-Benz var haldið í Samskipahöllinni 14. apríl s.l. Það er alltaf mjög gaman að sjá hversu mikil stemming er fyrir mótinu og Sörlakonur létu sig að sjálfsögðu ekki vanta. Við hin fylgdumst spennt með enda afar stolt af okkar fólki en 11 keppendur Sörla voru skráðir til leiks á 13 hestum.
Þær eru í stafrófsröð: Anna Björk Ólafsdóttir á Gusti, Freyja Aðalsteinsdóttir á Heklu, Friðdóra Friðriksdóttir á Orku, Friðdóra Friðriksdóttir á Brynjari, Heiðrún Arna Rafnsdóttir á Foldu, Jóhanna Freyja Ásgeirsdóttir á Fleyg, Kristín Helga Kristinsdóttir á Gullmola, Kristín Ingólfsdóttir á Garpi, Oddný M Jónsdóttir á Snúði, Sara Lind Ólafsdóttir á Arði, Sigrún Einarsdóttir á Karmi, Stella Björg Kristinsdóttir á Hásteini og Stella Björg Kristinsdóttir á Drymbli.
Niðurstöður mótsins hjá okkar konum voru þær helstar að Kristín Ingólfsdóttir og Garpur frá Miðhúsum enduðu í 10.-11. sæti í 2. flokki í T3, Oddný M. Jónsdóttir og Snúður frá Svignaskarði höfnuðu í 6. Sæti í 6. flokki í T3 og Sigrún Einarsdóttir og Karmur frá Kanastöðum sigruðu 4. flokk í T7. Glæsilegur árangur það sem og hjá öllum hinum sem tóku þátt. Við óskum keppendum innilega til hamingju. Þeir voru Hestamannafélaginu Sörla til mikils sóma.
Það sem gerir Kvennatölt Spretts svo áhugavert og skemmtilegt er það að boðið er upp á 4 flokka. Það gerir það að verkum að allir geta verið með. Auk hefðbundins 1. og 2. flokks er einnig boðið upp á 3. flokk fyrir minna vanar konur og 4. flokk fyrir byrjendur í keppni. Auk þess eru uppákomur eins og happadrætti og þátttökugjöf. Í ár var einnig boðið upp á skemmtilega myndatöku og víða má því sjá flottar myndir af glæsilegum Sörlakonum með gæðinga sína.