Markmið Sörla er að eiga fallegasta og snyrtilegasta útreiðasvæði höfuðborgarsvæðisins.
Kæru Sörlafélagar
Nú þurfum við að taka saman höndum.
Lengi hefur verið talað um hvað við Sörlafélagar séum einstaklega heppin með útreiðasvæði hvað varðar fegurð og fjölbreytileika. En svo virðist sem við höfum ekki nægilegan metnað til að halda því í sínu bestu og fallegastu ásýnd. Plast og annað rusl liggur í fallegum hraungjótum og víðar, viðhaldi húsa og tilltekt í kringum hesthúsin er ábótavant og síðast en ekki síst er verið að losa skít úr hesthúsunum, meðal annars í hraunið okkar fallega, en það er ekkert annað en umhverfisspjöll.
Stjórn Sörla vill setja markið hátt og gera Sörlasvæðið að fallegasta og snyrtilegasta hesthúsa- og útreiðasvæði á höfuðborgarsvæðinu. En það gerist ekki án þess að allir Sörlafélagar taki höndum saman. Við hvetjum því alla til þess að líta sér nær og skoða hvað þeir geta gert í sínum ranni.
Stjórn Sörla hóf vegferðina á hreinsunardeginum 20. maí síðastliðinn. Búið er að gera heilmikla tiltekt í kringum Sörlastaði og gera við og mála reiðgerðið. Í sumar verður farið í að vinna að endurbótum á vallarsvæði og bílastæðum og reiðgötum. Stefnt er að þvi að í haust verði sýnileg breyting á okkar fallega útivistarsvæði.
Sú gata í „efri byggðum“ Sörla, hringur/lína í Hlíðarþúfum sem tekur mestu breytingum fær sérstaka viðurkenningu á haustfundi Sörla.
Stöndum saman Sörlafélagar og látum umhverfið okkur varða.
Hér að neðan má sjá myndir af Sörlafélögum að laga reiðgerðið við reiðhöllina. Einnig eru myndir sem teknar voru í vetur af umhverfinu hjá okkur í Sörla og sýna að betur má ef duga skal ef við vijum hafa umhverfið huggulegt.