Kæru Sörlafélagar.
Dagana 24., 25. og 26. apríl stóðu yfir endurbætur á mótssvæði okkar Sörlara. Það var frábært að sjá nýja sjálfboðaliða taka þátt í starfinu ásamt vönu fólki sem ávallt er reiðubúið að vinna fyrir félagið sitt. Ég vil fyrir hönd stjórnar þakka öllum þeim sem mættu í vinnuna kærlega fyrir alla hjálpina. Um 20 manns mættu í heildina til starfa á þessum kvöldum.
Framkvæmdir fólust í því að plaströrin hvítu og timburverkið sem var áður meðfram völlum og keppnisbraut og komið var til ára sinna var fjarlægt og hvítur kaðall var settur í staðinn. Sagað var ofan af staurum meðfram beinu brautinni þannig að hestar sjást betur í brautinni. Þetta ætti að gleðja áhugasama ljósmyndara sem vilja mynda keppnisfólk í braut. Skipt var um festingar ofan á öllum staurum og settar festingar fyrir kaðalinn sem nú er á báðum hringvöllum og á beinu brautinni. Gras og grjót meðfram völlum var einnig fjarlægt og skipt um brotna staura. Þar sem það súldaði aðeins á okkur við vinnuna var ekki hægt að mála staurana hvíta eins og til stóð og bíður sú vinna eftir sólinni, eins og svo margir aðrir. Gaman væri að halda eitt uppskerukvöld á næstunni, klára að mála staura og tína rusl í kringum mótsvæðið og grilla svo og gleðjast að því loknu. Að lokum voru vellirnir slóðadregnir og síðan víbravaltaðir, sem hefur ekki áður verið gert svo við vitum.
Það er okkar von að vellirnir og umhverfi þeirra séu okkur Sörlafólki til sóma. Njótið vel. Takk kæru þið sem sáuð ykkur fært að mæta. Án sjálfboðaliða er ekki hægt að halda uppi góðu og öflugu félagi. Temjum okkur að hugsa hvað við getum gert fyrir Sörla, ekki endilega hvað Sörli getur gert fyrir mig.
F.h. stjórnar Atli Már